Ökuníðingur stöðvaður af fjárhjörð

22.01.2016 - 05:50
epa02785330 (FILE) A file photo dated 25 September 2007 showing some of the 33,000 sheep that were sold at the Forbes sale yards. Concern is growing over the increasing rate of foreign government-backed agencies buying up prime Australian
 Mynd: EPA  -  AAP FILE
Fjárhjörð tók að sér löggæslu í Nýja-Sjálandi í nótt þegar hún stöðvaði ökuníðing á flótta undan lögreglu. Lögregla hafði elt bílinn í 90 mínútur þegar hjörðin kom í veg fyrir að hann færi lengra.

Þannig vildi til að verið var að reka sauðféð meðfram veginum að nærliggjandi beitilandi þegar hjörðin varð þess valdandi að ökuníðingurinn hægði ferðina.
Aðdragandi eltingaleiksins var sá að lögregla stöðvaði bílinn fyrir hraðakstur og bílnúmeraplötu vantaði. Ökumaðurinn gaf allt í botn um það leyti sem lögregla hugðist ræða við hann og neitað að stöðva bílinn þrátt fyrir að nokkrir lögreglubílar eltu hann. Lögregla lagði gadda fyrir bílinn sem sprengdu eitt dekkja hans en ökumaðurinn hélt ótrauður áfram.

Það var ekki fyrr en ökumaðurinn ók fram á hjörðina sem hann hægði loks á sér og tókst lögreglu þá að hafa hendur í hári hans og þriggja farþega. Allir voru handteknir.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV