„Okkur fannst að nú væri komið nóg“

13.07.2017 - 10:07
Mynd með færslu
 Mynd: Kastljós  -  RÚV
Þröstur Leó Gunnarsson, leikari, steig í morgun fram sem faðir tveggja stúlkna sem beittar hafa verið kynferðisofbeldi í grein sem hann skrifaði í Fréttablaðið ásamt kollega sínum, Bergi Ingólfssyni. Önnur dóttir Þrastar byrgði sögu sína inni í nokkur ár áður en hún sagði fjölskyldunni frá. „Við vissum alltaf að það væri eitthvað að og svo kemur þetta upp og þá fer mynstrið allt í kleinu - eðlilega.“

Bergur hefur síðustu vikur verið áberandi í fjölmiðlum vegna máls Roberts Downey en hann hefur meðal annars hvatt dómsmálaráðherra til að endurskoða mál lögmannsins.  

Robert var fyrir tæpum áratug  dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir að brjóta gegn fjórum ungum stúlkum en dóttir Bergs var ein þeirra . Það vakti hörð viðbrögð þegar síðan kom í ljós að Robert hefði fengið uppreist æru í fyrra og lögmannsréttindi sín aftur með dómi Hæstaréttar. Enginn gögn fást um mál Roberts, hvorki hjá dómsmálaráðherra né dómstólum.

Bergur og Þröstur, sem léku meðal annars saman í sýningunni Nei, ráðherra fyrir fimm árum, gagnrýna í grein sinni hvernig staðið var að máli Roberts. Og  segja að hann hefði „einfaldlega getað bætt sig sem borgari án þess að krefjast í hroka sínum yfirburðastöðu í þjóðfélaginu og yfirvaldið þurfti ekki að ganga að henni.“ Þeir krefjast þess að hætt verði að setja ábyrgðina á þolendur. „Krefjumst ábyrgðar af ráðamönnum. Siðmenning er að hugsa fyrst um hag þeirra sem höllum fæti standa.“

Þröstur segist fyrst hafa frétt af máli Bergs og dóttur hans í fjölmiðlum. „Þegar ég las um þau kom strax upp að þetta væri líka í minni fjölskyldu. Og þarna vorum við kollegarnir og maður fór að spá: Getur verið að það sé miklu meira um þetta en við höldum? Þannig við Bergur hringdumst á og spjölluðum saman. Okkur fannst báðum að nú væri einhvern veginn komið nóg. Maður væri búinn að vera fastur með eitthvað í kokinu á sér í mörg ár en nú yrði að gera eitthvað.“

Þrátt fyrir að vera í sömu stétt,  jafnvel leikið í sömu sýningum, höfðu mál dætra þeirra aldrei borið á góma í samræðum þeirra. „Við ræðum ýmislegt en svona hlutir eru bara lokaðir. Kannski er maður líka að reyna vernda börnin sín - að vera ekki að tala um þetta. Mögulega er sá tími liðinn.  Kannski er bara kominn tími til að hafa svolítið hátt.“

Í grein Þrastar og Bergs nefna þeir einmitt þetta - að hafa hátt:  „Nú getum við ekki lengur áfellst sjálfa okkur fyrir að hafa ekki verndað dætur okkar nógu vel. Við getum ekki annað en reynt að hafa eins hátt og okkur er unnt þar til menningarlegur umsnúningur verður hjá yfirvaldinu og þjóðinni hvað þessi mál varðar,“ skrifa þeir. 

Þröstur segir það hafa verið mikið áfall þegar dæturnar sögðu frá sinni reynslu. „Þetta hefur rosaleg áhrif. Það líður langur tími þar til þær segja frá, nokkur ár hjá annarri. Við vissum alltaf að það væri eitthvað að en svo kemur þetta upp og þá fer allt kerfið í kleinu - eðlilega.“ Dæturnar fengu að lesa grein föður síns yfir áður en hún var birt í morgun og gáfu henni strax grænt ljós. 

Þröstur segist stundum vera hissa á því hvað dómar fyrir kynferðisbrot séu vægir miðað við hvað kynferðisbrot sé  mikið inngrip í líf manneskju. Sumir komist aldrei út úr þessu og svipti sig lífi. „Það er einhvern andskotinn að. Á kynferðisofbeldi bara að vera eðlilegur hlutur? Þetta á bara ekki að vera til.“

 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV