Ójafnt aðgengi að orku og flöskuhálsar víða

01.03.2016 - 18:40
Mynd með færslu
 Mynd: Kastljós  -  RÚV
Iðnaðarráðherra segir að ekki séu jöfn tækifæri á landsvísu varðandi aðgengi að raforku eða afhendingaröryggi og flöskuhálsar séu víða. Formaður atvinnuveganefndar Alþingis vill að stjórnvöld hafi það sem stefnu að sem flest störf tengd orkunotkun verði staðsett á landsbyggðinni.

Það var sérstök umræða á Alþingi í dag um stöðuna í orkuframleiðslu landsins þar sem Jón Gunnarsson formaður atvinnuveganefndar var málshefjandi og Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra til svara. Um fá mál er meira deilt á Alþingi en orkuframleiðslu og vernd og nýtingu landsvæða og í umræðunni í dag kristallaðist sá ágreiningur enn á ný.

„Það er óverjandi og það er óþolandi að viðhafa yfirgangs og tuddapólitík þegar að orkuauðlindir landsins eru annars vegar,“ sagði Birgitta Jónsdóttir.

„Stóra spurningin er ef til vill; vantar rafmagn á Íslandi? Svarið við því er að sjálfsögðu nei,“ sagði Svandís Svavarsdóttir.

Jón Gunnarsson sagði í umræðunni að vegna deilna hafi ekki verið hægt að fara í aðgerðir til uppbyggingar í meginflutningskerfi raforku í sjö til átta ár og allir þekki, sagði Jón, hver staðan er í orkuframleiðslu.

„Það er mjög mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því að það verða minni og fjölbreyttari kaupendur að raforku sem eru sóknarfæri fyrir landsbyggðina og það er mín skoðun að stjórnvöld eigi að hafa það að stefnu að sem flest störf tengd orkunotkun verði staðsett á landsbyggðinni,“ sagði Jón. 

Iðnaðarráðherra sagði að því miður hefði borið af leið í sátt um rammaáætlun sem vonir hefðu verið bundnar við. Ráðherrann leggi áherslu á að standa um hana vörð.

„Virðulegur forseti í dag eru ekki jöfn tækifæri á landsvísu þegar kemur að aðgengi raforku eða afhendingaröryggi. Flöskuhálsar eru víða í flutningskerfi raforku sem valda því að landsvæði keppa ekki á jafnræðisgrundvelli um sköpun nýrra atvinnutækifæra. Við sjáum þetta til dæmis á Vestfjörðum og norðurlandi eystra.“

 

 

 

 

 

Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV