Ófært á Akureyri

11.12.2014 - 07:05
Mynd með færslu
Færðin á Akureyri er með versta móti, að sögn lögreglu, og má heita að það sé ófært í bænum. Snjóruðningstæki eru byrjuð að ryðja stofnbrautir en ástandið er mjög misjafnt eftir hverfum og jafnvel götum. Að sögn lögreglu eru sumsstaðar metersháir skaflar í götum.

Veðrið virðist vera að ganga niður í bænum en enn sé fjúk. Lögreglan beinir því til vegfarenda að kanna vel aðstæður áður en haldið verður af stað og fara heldur fótgangandi sé kostur á því.  Lögreglan hafi ekki bolmagn til að aðstoða þá sem festu sig, því hún verði að sinna neyðartilvikum, eins og sjúkrabíla. Ekki hafi skapast nein hætta í slíkum tilvikum í nótt. Einn bíll frá Björgunarsveitinni Súlum verði lögreglunni til aðstoðar fram á morguninn. 

Komu ökumönnum til aðstoðar í nótt
Björgunarsveitin Súlur á Akureyri var kölluð út um tvö leytið í nótt til að aðstoða ökumenn sem fest höfðu bíla sína innanbæjar og koma þeim heim. Magnús Viðar Arnarsson, formaður björgunarsveitarinnar segist ekki hafa tölu á fjölda bíla sem höfðu farið út af en samkvæmt lögreglunni á Akureyri voru þær nærri 20. Magnús segir að björgunarsveitin hafi lokið störfum um fimm leytið og að svo virðist sem veðrið sé að ganga niður.

Bíl frá Björgunarsveitinni Dalbjörgu var ekið um Eyjafjarðarsveitina milli klukkan sex og átta í gærkvöld til að athuga hvort eitthvað bjátaði á. Tveir höfðu misst bíla sína út af en búið var að aðstoða þá þegar björgunarsveitarmenn komu á staðinn.  Kristján Hermann Tryggvason, formaður Dalbjargar, segir að fólk hafi greinilega haldið sig heima.