„Ódrekkandi“ kranavatnið var selt á flöskum

10.03.2016 - 13:33
Mynd með færslu
 Mynd: Facebook  -  Skjáskot
Flöskuvatnið sem eigandi Hótel Adams seldi gestum sínum, kom úr krönunum sem gestir höfðu verið varaðir við að drekka vatn úr. Þetta fékkst staðfest hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur. Vatnið í krönunum reyndist vera í góðu lagi. Hluti af starfsemi hótelsins er enn innsiglaður því ekki eru fyrir hendi tilskilin leyfi.

Hótel Adam á Skólavörðustig í Reykjavík komst í fréttirnar í síðasta mánuði þegar í ljós kom að eigandi hótelsins varaði gesti sína við að drekka vatn úr krönum og þeim þess í stað ráðlagt að kaupa vatn sem hótelið seldi á flöskum, tveggja lítra flöskur á 400 krónur stykkið. Rannsókn leiddi í ljós að ekkert var að kranavatninu og samkvæmt upplýsingum frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur í morgun hefur eigandinn viðurkennt að hafa tappað á flöskurnar af krana á hótelinu.

Lögreglan innsiglaði í síðasta mánuði hluta af hótelinu og er sá hluti enn innsiglaður. Eigandi hótelsins var með rekstur á annarri og þriðju hæð hússins, í húsi við Lokastíg og tengibyggingu þar á milli. Hann var hins vegar bara með leyfi fyrir þriðju hæðinni og mótttöku og veitingasölu á jarðhæð, engin leyfi voru fyrir rekstri á annarri hæð, í tengibyggingunni eða á Lokastíg. Tuttugu herbergi voru í útleigu, en leyfi aðeins fyrir níu.

Mynd með færslu
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV