Oddný liggur undir feldi

11.03.2016 - 15:29
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi fjármálaráðherra, íhugar að bjóða sig fram til formennsku í Samfylkingunni.

Hún sagði í samtali við fréttastofu í dag að hart væri lagt að henni að bjóða sig fram og að það gæti vel farið svo að hún léti af því verða. Það yrði þó ekki fyrr en í fyrsta lagi að afloknu flokksstjórnarfundur Samfylkingarinnar sem fram fer um helgina.

Það lítur út fyrir að formannsslagurinn í Samfylkingunni í sumar gæti orðið harður, Helgi Hjörvar alþingismaður hefur boðað framboð, líklegt er talið að Magnús Orri Schram, fyrrverandi alþingismaður bjóði sig fram og Árni Páll Árnason, formaður flokksins hefur enn ekki ákveðið hvort hann freisti þess að verja stöðu sína.