Óaðgengilegir afarkostir settir fram

11.11.2014 - 21:28
Mynd með færslu
Ríkissáttasemjari sleit samningafundi í kjaradeilu tónlistarkennara á tíunda tímanum í gærkvöld án þess að boða til nýs fundar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sigrúnu Grendal, formanni Félags íslenskra tónlistarskólakennara. Verkfall tónlistarkennara hefur nú staðið yfir í 21 dag.

Sigrún segir að staðan sé grafalvarleg og að vandinn sem samninganefndin þurfi að kljást við í yfirstandandi kjaraviðræðum sé margþættur og uppsafnaður. Tónlistarskólakennarar hafi verulegar áhyggjur af því hvert stefni með tónlistarskólakerfið hér á landi og tónlistarmenntun.

Niðurstaða samningafundarins í gærkvöld undirstriki fyrri túlkun Félags tónlistarskólakennara á stöðu deilunnar. Tónlistarskólakennurum séu enn settir óaðgengilegir afarkostir í kjaraviðræðunum sem ógni faglegri getu tónlistarskóla til að uppfylla þau skilyrði að starfa samkvæmt aðalnámskrá tónlistarskóla. 

Ásgeir Trausti, Guðrún Eva Mínervudóttir, Jakob Frímann, Brynhildur Guðjónsdóttir og Ágúst Einarsson hafa stigið fram til stuðnings tónlistarskólakennurum í myndskeiði sem birt hefur verið á vefnum.