Nýja fjallið er orðið 82 metra hátt

09.04.2010 - 14:05
Mynd með færslu
Myndast hefur 82 metra hátt fjall við eldstöðvarnar á Fimmvörðuhálsi. Þetta kemur fram í samantekt Freysteins Sigmundssonar og Eyjólfs Magnússonar hjá Jarðfræðistofnun Háskóla Íslands. Í fyrradag var hæð gosstöðvanna mæld nákvæmlega með hæðarkíki og GPS-mæli. Hæsti hluti fjallsins var þá í 1067 metra hæð yfir sjávarmáli.

Mælingarnar leiddu einnig í ljós að hraunið þekur svæði sem er 1,3 ferkílómetrar að stærð og er harunir 10 til 20 metra þykkt. Allt að 24 milljónir rúmmetra af gosefnum höfðu komið úr jörðu þegar mælingin var gerð. Frá upphafi gossins hafa því að meðaltali komið 15 rúmmetrar af hrauni úr sprungunum á hverri sekúndu.