Nýir stjórnendur Hörpu í haust

11.08.2012 - 12:31
Mynd með færslu
Stjórnarformaður Portusar, eignarhaldsfélags um rekstur Hörpu, telur ekki rétt að skipta um stjórnarmenn í félaginu, þrátt fyrir 400 milljóna króna tap af rekstri Hörpu. Hann hefur ekki íhugað afsögn og telur að núverandi stjórn eigi að klára verkefnið.

Eins og ítrekað hefur komið fram í fréttum er reiknað með að hallarekstur á Hörpu verði rúmar 400 milljónir króna á þessu ári. Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra segir að þegar nýtt félag um rekstur Hörpu verði stofnað í haust verði skipað í nýja stjórn. Heimildir fréttastofu herma að þá verði nýtt fólk kallað til ábyrgðar og þeir sem sitja nú í stjórnum félaganna sem stjórna Hörpu látnir víkja.

Pétur J. Eiríksson, stjórnarformaður Portusar, eignarhaldsfélags um rekstur Hörpu og nokkurra annarra félaga sem koma að rekstrinum segir stjórn hafa skýrt frá þessum vanda í fyrra og að eigendur verði að finna lausn á honum. Ljóst sé að ríki og borg verði að leggja til aukið fé til rekstrarins. Í haust á að einfalda yfirbyggingu Hörpu og fækka  félögum sem koma að rekstrinum.  Þau voru átta en hefur nú verið fækkað í sex.

Pétur er ekki þeirrar skoðunar að skipta beri út fólki í stjórnum félaganna, það hafi sagt satt og rétt frá vandanum sem við er að glíma.
„Ég tel að þessi stjórn eigi að klára þetta vandamál, þannig að ég tel ekki réttan tímapunkt að skipta um fólk núna,“ segir Pétur. 

Þórunn Sigurðardóttir situr í stjórn Portusar og er stjórnarformaður Ago, dótturfélags Portusar. Hún tekur undir með Pétri og segir þennan hallarekstur hafa verið algerlega fyrirséðan. Hún bendir á að fasteignagjöldin renni til hins opinbera þannig að peningarnir renni í raun úr einum vasa í annan. Auk þess séu skattar sem hið opinbera fái vegna hússins hærri en sem nemur hallarekstrinum. Þórunn vill ekki tjá sig um hvort rétt sé að skipta um stjórnarmenn núna. Hún hafi hugleitt að segja af sérstjórnarstörfum og býst við að flestir hafa gert það en finnst of snemmt að segja til um hvort af afsögn verði.