Ný ríkisstjórn - Viðtöl og viðbrögð

10.01.2017 - 23:38
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar tekur við völdum miðvikudag. Hún átti þó sviðið þegar stjórnarsáttmálinn var kynntur og upplýst um hverjir verða ráðherrar. Fréttastofa RÚV fylgdist með atburðum. Hér er það helsta sem kom fram.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og verðandi forsætisráðherra, Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar og verðandi fjármálaráðherra, og Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar og verðandi heilbrigðisráðherra, kynntu stjórnarsáttmálann á blaðamannafundi í Kópavogi. 

Formennirnir sögðu jafnvægi og framsýni vera leiðarstef nýju ríkisstjórnarinnar sem vildi að Ísland yrði eftirsóknarvert fyrir alla sem vilja byggja upp íslenskt samfélag til framtíðar. Heilbrigðismál verða sett í forgang, fjölbreytni aukin í atvinnulífi og áhersla lögð á umhverfisvæna starfsemi, segir í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Forystumenn stjórnarandstöðunnar hrifust þó ekki með. Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, og fráfarandi forsætisráðherra, sagðist óttast að landsbyggðin yrði útundan í áherslum nýju stjórnarinnar. Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata, lýsti óánægju með að í annað skiptið á skömmum tíma yrði maður forsætisráðherra sem hefði komið við sögu í Panamaskjölunum.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, og Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri-grænna, sögðu að stjórnarsáttmálinn væri frekar rýr og almennt orðaður.

Sjálfstæðismenn urðu fyrstir til að tilkynna um ráðherraval sitt. Það gerði Bjarni Benediktsson eftir stuttan þingflokksfund í Valhöll. Nýju ráðherrarnir lýstu ánægju með nýtt hlutverk og kváðust spenntir fyrir að takast á við starfið.

Skömmu eftir það komu tíðindi af því hverjir yrðu ráðherrar Viðreisnar, yngsta stjórnmálaflokksins sem á fulltrúa á Alþingi. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir verður fyrsta konan til að gegna embætti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þorsteinn Vilhjálmsson verður félagsmála- og jafnréttisráðherra.

Óttar Proppé, sagði það til marks um hversu mikla áherslu nýja ríkisstjórnin legði á heilbrigðismálin að einn flokksformannanna yrði ráðherra í þeim málaflokki. Hinn ráðherrann er Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, sem segir að stóriðjustefnan verði aflögð á Íslandi og hætt að veita mengandi stóriðju ívilnanir.

Þar með er orðið ljóst hvaða ellefu ráðherrar taka við embætti. Af ellefu ráðherrum eru sjö karlar og jafnmargir einstaklingar sem hafa aldrei áður gegnt ráðherradómi. Þrír ráðherranna settust í fyrsta skipti á þing eftir síðustu þingkosningar. 

Þórdís Kolbrún Gylfadóttir er yngsti ráðherrann, 29 ára fyrrverandi aðstoðarmaður Ólafar Nordal í innanríkisráðuneytinu. Hún verður ráðherra iðnaðar, nýsköpunar og ferðamála. Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra er elstur ráðherranna, 61 árs.

Mynd með færslu
 Mynd: Sigurður Þórisson  -  RÚV