Nótnablöðin sótt til Kanada

30.11.2011 - 20:36
Mynd með færslu
Sækja þurfti nótnablöð Sveinbjörns Sveinbjörnssonar alla leið til Kanada til að hægt væri að fá heildarmynd af tónverkum hans. Nokkur þeirra verða frumflutt í Salnum í Kópavogi annað kvöld - en önnur verk í efnisskránni eru meitluð inn í þjóðarvitund Íslendinga.

Sveinbjörn Sveinbjörnsson samdi ekki aðeins lagið við Sprett, eftirlætiseinsöngslag íslenskra hestamanna, heldur líka lagið við Þjóðsönginn. En ekki eru öll tónverk hans eins þekkt. Annað kvöld verða nokkur verk hans frumflutt á hátíðartónleikum helguðum honum í Salnum í Kópavogi.

Handritin hans Sveinbjörns hafa verið að hluta til geymd hjá eftirlifandi ættingjum hans í Kanada og að hluta til í Þjóðarbókhlöðunni.

„Til að mynda hafa ókláruð verk verið hér en svo koma þau fullkláruð annars staðar frá í öðru handriti. Þannig að myndin er smám saman að taka á sig endanlegt form,“ segir Nína Margrét Grímsdóttir, listrænn stjórnandi hátíðartónleikanna.

Sveinbjörn, sem lést árið 1927, bjó lengi í Edinborg, og mörg verk hans eru samin við ljóð eftir skosk og ensk skáld, eins og Keats.

Á meðal flytjenda á morgun eru Þóra Einarsdóttir sópran, Gissur Páll Gissurarson, tenór, og Sigurgeir Agnarsson, sem hér leikur á selló.

„Við heyrum auðvitað rómantíkina sterkt og lýríkina, vegna þess að það er sérkenni á tónlist Sveinbjörns, mjúk lýrik og rómantík.“