„Notkun ADHD-lyfja gæti vel farið vaxandi“

22.01.2016 - 13:10
„Lyfin eru aðalmeðferðin við ADHD og mjög stór hluti þeirra sem taka þau fá af þeim hjálp. Það hefur ekki verið sýnt fram á að eingöngu markþjálfun eða sálfræðimeðferð gefi marktækan árangur,“ þetta segir Þórgunnur Ársælsdóttir, formaður Geðlæknafélags Íslands. Hún segir skýrt að lyfin virki. „Það er búið að sýna fram á það með óyggjandi hætti. Svona umræða kemur alltaf upp reglulega. Það er alltaf hægt að leika sér með tölur eða benda á að einhver rannsókn sé ekki fullkomin.“

Heilbrigðisráðherra vill draga úr notkun ADHD-lyfja og beina þeim sem greindir eru með röskunina í auknum mæli í sálfræðimeðferð og markþjálfun. Til stendur að fjölga sálfræðingum á heilsugæslustöðvum. Þrefalt fleiri nota ADHD-lyf hér á landi en í nágrannalöndunum og misnotkun á þeim er einnig tíðari. Hin virta Cochrane-rannsóknarmiðstöð birti nýverið niðurstöður kerfisbundnar úttektar á þeim rannsóknum sem fyrir liggja um virkni lyfjanna. Niðurstaðan var á þá leið að rannsóknir á virkni lyfjanna væru ófullnægjandi og því ósannað hvort þau kæmu að gagni. Fjallað var um þetta í Speglinum í gær
Þórgunnur Ársælsdóttir, formaður geðlæknafélags Íslands og meðlimur í ADHD-teymi Landspítalans, og Þröstur Emilsson, framkvæmdastjóri ADHD-samtakanna, ræddu málið við Arnhildi Hálfdánardóttur.

Í spilaranum hér fyrir ofan má hlýða á bæði styttri og lengri útgáfu af viðtalinu.