Nokkrir tónlistarskólar stefna í gjaldþrot

12.11.2014 - 12:31
Mynd með færslu
Sumir tónlistaskólanna í Reykjavík standa frammi fyrir mjög erfiðum rekstri og jafnvel gjaldþroti á næstu vikum vegna þess að Reykjavíkurborg greiðir ekki allan kennslukostnað, segir Gunnar Guðbjörnsson, skólastjóri Söngskóla Sigurðar Demetz. Staðan sé grafalvarleg.

Verkfall tónlistarskólakennara hefur nú staðið í þrjár vikur og lausn er ekki í sjónmáli. Þó svo samningar tækjust í launadeilu kennara og sveitarfélaga er rekstrarvandi sumra tónlistarskóla, einkum skóla í Reykjavík með marga nemendur á söng- eða framhaldsskólastigi, síður en svo úr sögunni, segir Gunnar.

Sveitarfélögin greiði launa- og stjórnunarkostnað tónlistarskólanna, en skólagjöld dekki annan rekstrarkostnað. Ríkið hleypur síðan undir bagga vegna nemenda á framhaldsskóla- og söngstigi, 520 milljónir króna á ári, sem fara í sérstakan jöfnunarsjóð. Þessir peningar duga engan veginn segir Gunnar. Öll sveitarfélög greiði það sem upp á vanti, en ekki Reykjavíkurborg. Borgin hafi hlaupið undir bagga og lánað skólum í Reykjavík það sem upp á hefur vantað til að geta greitt laun, en nú standi nokkrir skólar í Reykjavík frammi fyrir gjaldþroti. 

„Skólarnir hafa í rauninni ekki getað fjármagnað kennsluna nema með því að ganga á sína eigin sjóði og jafnvel á það fjármagn sem ætlað er til annars rekstrarkostnaðar eins og leigu, fasteignagjalda, hita, rafmagns o.sv.frv. - þ. e. skólagjöldin. Sumir eru komnir í svo alvarlega stöðu að það blasir eiginlega gjaldþrot við á næstu vikum eða mánuðum", segir Gunnar Guðbjörnsson.