Nestislitlir í 20 tíma útkalli

03.03.2014 - 12:27
Mynd með færslu
Björgunarsveitamenn frá Vopnafirði voru að störfum í 20 klukkustundir, frá laugardagskvöldi og fram á sunnudag. Bílstjóri fólksbíls ók framhjá lokunarslá í Mývatnssveit og festi sig á ófærum vegi í Möðrudal.

Leiðin milli Akureyrar og Egilsstaða var ófær um helgina enda hefur Vegagerðin tilkynnt að hluti hennar verði ekki mokaður nema tvo daga í viku. Bílstjóri á fólksbíl reyndi að komast frá Mývatni austur eftir á laugardagskvöld en festi sig í Jökulkinn í Möðrudal. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Egilsstöðum ók maðurinn framhjá lokunarslá í Mývatnssveit. Björgunarsveitin Vopni var kölluð út frá Vopnafirði og var 14 tíma að ná til mannsins enda mikil ófærð. Jón Sigurðsson, formaður Vopna, segir menn hafa búist við auðveldum leiðangri en annað koma á daginn: ,,Við affelguðum bíl hjá okkur og það tók dálítinn tíma að laga það. Menn gerðu sér bara ekki grein fyrir því almennilega fyrr en menn voru komnir á staðinn að þetta var miklu meira en við gerðum ráð fyrir. Miklu meiri snjór og miklu meiri ófærð og vera veður.“

Alls varð útkallið 20 klukkutímar og björgunarsveitamenn komu heim seint á sunnudag. Þeir fengu aðstoð frá Jökli á Jökuldal og Fjallaskátum úr Möðrudal. Björgunarsveitamenn voru nestislitlir enda bjuggust þeir ekki við svo löngu útkalli. ,,Þetta átti að vera bara mjög snöggt. Menn voru nýbúnir að borða mat heima og áttu bara að skreppa aðeins. Þannig að það var ekki mikið með.“

Eins og kunnugt er ætlar vegagerðin aðeins að moka Möðrudalsöræfi, Vopnafjarðarheiði og Háreksstaðaleið aðeins tvisvar í viku vegna snjóþyngsla. Jón á þó ekki von á að útköll verði mörg. ,,Það eru nú komin skilti eða vegslár við veginn í Mývatnssveit og á Skjöldólfsstöðum og hér í Vopnafirði. Þannig að fólk á að sjá það að þegar er ófært þá eru þessar slár niðri. Við vonum að fólk taki mark á því, þá verður þetta ekkert mál.“

Slysavarnafélagið Landsbjörg beinir því til þeirra sem landa í vanda að vera ófeimnir að óska eftir aðstoð og gera það sem fyrst sama hvar þeir eru staddir. Leiðin frá Mývatni til Egilsstaða er enn ófær. Hún var ekki mokuð gær eins og til stóð en mokstri var frestað til dagsins í dag. Ryðja á leiðina á þriðjudögum og föstudögum og er fólk beðið að fylgjast vel með færð enda getur verið að mokstursáætlun raskist vegna veðurs.