Nektarmyndir brot á hegningarlögum

20.03.2016 - 18:41
Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Umboðsmaður barna segir að það sé grafalvarlegt mál ef krakkar taka af sér nektarmyndir og senda á Snapchat. Þau þurfi að vita að dreifing á klámefni af börnum er brot á hegningarlögum.

Nokkuð algengt virðist vera að unglingar í grunnskóla sendi nektarmyndir af sér á Snapchat og dæmi eru um að þessar myndir séu sýndar öðrum eða dreift á netinu.   
Andrea Marel hefur ásamt öðrum verið með fræðslu um sjálfsmynd, samfélagsmiðla og samskipti kynjanna í félagsmiðstöðvum og skólum víðsvegar um land á liðnum tveimur árum. Þau hafa rætt við hundruð barna í 8.-10. bekk og komust að því að nokkuð algengt sé að krakkarnir taki myndir af nöktum líkamspörtum og sendi vinum.  Stór hluti barnanna þekkti líka krakka sem höfðu dreift þessum myndum víðar.  Mál af þessu tagi koma reglulega inn á borð umboðsmanns barna. 

Margrét María Sgurðardóttir, umboðsmaður barna segir að þegar efni fer á netið þá lifir það. 

 
„Og þetta fer jafnvel á erlendar síður og lifir þar og maður hefur heyrt um stelpur sem eru að glíma við mjög alvarlegar afleiðingar af þessu og eflaust strákar líka.“

Dæmi eru um að myndirnar hafi verið notaðar til að kúga krakkana. Þeim verið hótað að mynd verði birt ef viðkomandi sendi ekki aðra enn djarfari.  

„Sko í rauninni að vera með klámefni af börnum er refsivert samkvæmt hegningarlögum og að dreifa því líka þannig að krakkarnir þurfa líka að vita það að þetta er í rauninni gegn hegningalögum.“

„Þannig í rauninni þá eru þau að brjóta lög?“

„Já það getur verið um það að ræða. Það er svo mikilvægt að fræða þau um þessi mál.“

 

Mynd með færslu
 Mynd: ruv

Talað er um sex-ting þegar send eru skilaboð eða mynd sem gefur eitthvað kynferðislegt til kynna. 
Ungmennaráð Samfés, samtök félagsmiðstöðva á Íslandi hefur undirbúið jafningjafræðslunámskeið til að fræða ungt fólk um sexting og afleiðingar þess. Stefnt er að því að námskeiðið fari fram í öllum félagsmiðstövum á Íslandi. 

„Það sem er líka vandinn er að krakkarnir eru alltaf á undan okkur fullorðnafólkinu þannig að heimurinn þeirra við þekkjum hann ekki alltaf.“

Þau verða að átta sig á því að þetta er brot á hegningarlögum að dreifa klámefni um börn þannig að þetta getur haft miklar afleiðingar í för með sér.“  

„Í mínum huga er þetta bara grafalvarlegt“

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV