Nefndu engan höfuðpaur við yfirheyrslur

17.01.2016 - 19:19
A cocaine user in London, Britain, 16 January 2009. The number of people in the UK addicted to the 'celebrity' drug cocaine is reaching shocking levels, reports suggest. Britons consume more cocaine than almost any other country in Europe,
 Mynd: EPA
Í lögregluskýrslum frá Brasilíu kemur hvergi fram að íslenskt par, sem handtekið var í landinu milli jóla og nýárs, hafi nafngreint Íslending sem umsvifamikinn fíkniefnasmyglara á svæðinu. Faðir stúlkunnar segir að dóttir sín sé fórnarlamb í málinu og hún neiti alfarið sök.

Tuttugu og sex ára karlmaður og tvítug kona frá Íslandi voru handtekin í borginni Fortaleza í Brasilíu með nokkur kíló af kókaíni í fórum sínu, sem þau eru grunuð um að hafa ætlað að smygla úr landi.

Þekktur og verðlaunaður blaðamaður í Paragvæ,Cándido Figueredo Ruiz, fullyrti í samtali við RÚV að parið hefði nefnt við yfirheyrslur hjá lögreglu að Guðmundur Spartakus, sem ekkert hefur spurst til í rúm tvö ár, væri einn af umsvifamestu fíkniefnasmyglurum á svæðinu.

Ummælin eiga sér ekki stoð í lögregluskýrslum

Brasilískur lögmaður konunnar aflaði gagna hjá lögregluyfirvöldum í Fortaleza, sem Utanríkisráðuneytið sá um að þýða fyrir fjölskyldu konunnar. Fréttastofa hefur gögnin undir höndum. Þar kemur hvergi fram að fólkið hafi nefnt eitt einasta nafn í yfirheyrslum hjá lögreglu. Faðir stúlkunnar, sem vill hvorki koma fram undir nafni né í mynd, segir fjölskylduna gera alvarlegar athugasemdir við ummæli blaðamannsins frá Paragvæ.

„Okkur finnst þetta mikill ábyrgðarhlutur að varpa þessu fram, því við teljum að þetta geti komið stúlkunni í verulega hættu,“ segir faðir konunnar í samtali við fréttastofu. „Við vitum og höfum séð að það hefur bara farið fram ein yfirheyrsla það sem ekkert þessu líkt kemur fram, þannig að það er alveg á kristaltæru að þau sögðu ekki til eins eða neins.“

Fjölskyldan nánast rúmliggjandi af áhyggjum

Fjölskylda konunar hefur ráðið lögmann í Brasilíu til að gæta hagsmuna hennar og þá er starfsmaður á vegum utanríkisráðuneytisins parinu innan handar á staðnum. Honum er ætlað að tryggja þeim réttláta málsmeðferð. Faðir konunnar segir að dóttir sín sé fórnarlamb í málinu og að hún neiti alfarið sök. Lögregluyfirvöldum sé heimilt að halda henni í allt að fjörutíu daga, til að rannsaka málið og gefa út ákæru. 

„Dóttir mín er komin í kvennafangelsi, eftir að hafa verið tíu daga í einangrun á lögreglustöð. Aðbúnaður þar er merkilega góður miðað við fréttir af fangelsum í Brasilíu. Hún ber sig ótrúlega vel stúlkan, en framhaldið og óvissan er náttúrulega það versta í þessu, því við vitum raun og veru ekkert hvað tekur við,“ segir faðir konunnar í samtali við fréttastofu. Hann segir málið taka mikið á fjölskylduna. „Það líður öllum hræðilega. Fólk er nánast rúmliggjandi og óstarfhæft.“