Nautin fóðruð á ávöxtum og grænmeti

23.04.2014 - 21:31
Mynd með færslu
Um 400 tonn af ávöxtum og grænmeti sem annars væri hent er notað í fóður fyrir svín og nautgripi. Starfsfólki Búrs ofbauð kostnaðurinn við að senda úrganginn í Sorpu til urðunar og fann lausn með bónda sem fóðrar nautgripi með góðgætinu.

Ávextir og grænmeti hafa stuttan líftíma miðað við margar aðrar vörur og því fellur töluvert af. „Við meðhöndlum hjá þessu fyrirtæki á ári einhvers staðar í kringum 20 þúsund tonn af varningi. Ef þetta eru 2 prósent af því þá eru þetta um 400 tonn,“ segir Sigurður Á. Sigurðsson, framkvæmdastjóri Búrs, um það sem fellur til á hverju ári.

Áður var það allt urðað í Sorpu með tilheyrandi kostnaði. Í samvinnu við bónda í Flóanum var fundin önnur lausn. Þegar hann kemur með kartöflur til Búrs notar hann ferðina og sækir grænmeti og ávexti sem eru komnir á tíma. „Kostnaðurinn er miklu lægri við þetta og þeir fá bragðgott og næringaríkt fóður fyrir skepnurnar og svo líður mönnum betur með þetta svona því þetta er mikið vistvænni aðferð heldur en hitt,“ segir Sigurður.

Kristján Einarsson er sjálfur kartöflubóndi og þegar hann hefur safnað saman í góða kerru og sett allar umbúðir í endurvinnslu rennir hann með góðgætið til nautgripa í eigu bónda í sveitnni. „Gripirnir vita vel hvað er í vændum og bíða þess með óþreyju að komast að veisluborðinu,“ segir Kristján. „Það er alltaf jól og veisla þegar ég kem. Ég er varla kominn hér að Baugsstöðum þegar þeir leggja af stað á móti vélinni. Um leið og þeir heyra í vélinni þá leggja þeir af stað og þeir fara úr grænum heyjum, beint yfir í grænmetið þegar ég kem og þeir fara ekki úr því fyrr en það er búið.“

Það tók smá tíma fyrir nautin að víkka út matseðilinn og læra að sprengja melónurnar og opna bananana. „Þau voru nú til að byrja með svolítinn tíma að átta sig á þessu þegar ég kom fyrstu ferðirnar en núna éta þau þetta 99 prósent það er nánast ekkert sem þau skilja eftir, það er svona laukur og sítrónur og svona, þau eru ekkert hrifin af því.“

Og fyrir fóðrið fær Kristján kjöt. „Alveg frábært kjöt og við erum búin að gefa prufu á því þegar búið er að gefa þetta í ákveðinn tíma þá er kjötið engu líkt. Það er miklu betra, ljósara, meirara og bragðbetra.“