N-Kórea hleypti af fallbyssu nærri landamærum

20.02.2016 - 02:04
Mynd með færslu
 Mynd: Kristoferb  -  Wikimedia Commons
Nokkrum skotum var hleypt af fallbyssu af norður-kóreskri eyju nærri hafsvæði Suður-Kóreu í nótt. AFP fréttastofan hefur þetta eftir talsmanni suður-kóreska hersins. Mikil spenna ríkir á milli Kóreuríkjanna eftir kjarnorku- og flugskeytatilraunir Norður-Kóreu undanfarið.

Að sögn talsmanns varnarmálaráðuneytisins lentu skotin í landhelgi Norður-Kóreu og ollu engum skaða. Íbúar Yeonpyeong eyju voru sendir í skjól um tíma. Árið 2010 létust fjórir þegar flugskeyti frá Norður-Kóreu lenti á eynni.

Suður-Kórea tilkynnti í vikunni að árleg sameiginleg heræfing með Bandaríkjunum verði margfalt umfangsmeiri í ár en síðustu ár. Æfingarnar valda yfirleitt núningi í samskiptum ríkjanna.