Mourinho færist nær Manchester United

05.02.2016 - 23:36
Chelsea's manager Jose Mourinho and team doctor Eva Carneiro, right, during the English Premier League soccer match between Chelsea and Swansea City at Stamford Bridge stadium in London, Saturday, Aug. 8, 2015. Chelsea team doctor Eva Carneiro is set
 Mynd: AP
Enska knattspyrnufélagið Manchester United er í viðræðum við portúgalska knattspyrnustjórann Jose Mourinho um að taka við félaginu undir lok tímabilsins. Þetta fullyrðir breska ríkisútvarpið BBC.

Mourinho var rekinn frá Chelsea í desember eftir afleitt gengi félagsins. Stuðningsmenn Manchester United eru margir hverjir orðnir þreyttir á spilamennsku félagsins undir stjórn Hollendingsins Louis van Gaal og er búist við því að hann yfirgefi félagið undir lok leiktíðar. Eins og staðan er í dag er félagið fimm stigum frá fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar og var slegið út í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu fyrir áramót.

Sögusagnir fóru á kreik um að Mourinho hefði sent Manchester United ferilskrá sína í janúar eftir tap gegn Southampton. Umboðsmaður hans, Jorge Mendes, var þó fljótur að kveða þær niður. Að sögn AFP fréttaveitunnar er Mourinho hrifnari af því að taka við liðinu í lok leiktíðar. Þá getur hann sett sitt mark á liðið, keypt og selt leikmenn eftir sínu höfði.

Mourinho var orðaður við knattspyrnustjórastarfið hjá Manchester United þegar Alex Ferguson lauk áratugalöngum sigursælum ferli. Sagt er að stjórn félagsins hafi ekki litist á það vegna þess hversu erfiður hann er í samstarfi. 

Ráðning Pep Guardiola, fyrrum knattspyrnustjóra Barcelona og nú stjóra Bayern München, til nágrannaliðsins Manchester City er sögð hafa ýtt stjórn United út í að skipta um stjóra eftir leiktíðina.