Mótmæla illri meðferð á föngum

03.04.2013 - 12:11
Mynd með færslu
Þriggja daga allsherjarverkfall hófst í dag meðal Palestínumanna á Vesturbakka Jórdanar og á Gaza til að mótmæla illri meðferð á palestínskum föngum í ísraelskum fangelsum. Þá efna palestínskir fangar til mótmælasveltis.

Tilefni aðgerðanna er dauði Maisara Abu Hamdiyeh, 63 ára gamals Palestínumanns sem dó í ísraelsku fangelsi í gær. Hann þjáðist af krabbameini í hálsi og saka Palestínumenn Ísraela um að hafa neitað honum um læknisaðstoð. Mótmæli og uppþot hafa orðið í heimaborg hans, palestínsku borginni Hebron, þar sem skólar, verslanir og opinberar skrifstofur eru lokaðar.

Þúsundir taka þátt í mótmælum í borginni Nablus. 4.600 palestínskir fangar eru í mótmælavelti en nokkrir fanganna hafa verið í svelti lengi til að mótmæla því Ísraelar halda þeim í fangelsi án þess að þeir hafi verið ákærðir eða dæmdir.

Abbas forseti Palestínumanna segir að Ísraelsstjórn hafi neitað ósk forystumanna Palestínumanna um að fanginn fengi að gangast undir læknismeðferð utan fangelsis.

Meðferð Ísraela á palestínskum föngum kastar skugga á tilraunir Bandaríkjastórnar til þess að reyna að koma á friðarviðræðum. Mahmud Abbas forseti Palestínumanna hittir John Kerry utanríkisráðherra Bandaríkjanna í lok vikunnar í Amman í Jórdaníu.