Mjög misjöfn mæting þingmanna í haust

08.10.2016 - 19:00
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ellefu þingmenn hafa mætt í innan við helming atkvæðagreiðslna á haustþingi. Fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins hefur aldrei mætt og gefur þá skýringu að hann hafi ítrekað þurft að verja formannsstólinn.

 

Umræða um viðveru alþingismanna hefur verið áberandi síðustu vikur. Síðast tók Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, þetta upp á þingfundi í gær.

„Sumir hafa ekki, að mínu viti, sinnt þingskyldu sinni svo vikum og mánuðum skiptir.“

Hún veltir því upp hvort breyta þurfi þingskaparlögum svo þetta sé ekki undir einstökum þingmönnum eða þingflokkum komið.

„Það getur ekki talist ásættanlegt að vera ekki í vinnunni, þ.e. að sinna ekki þingstörfum hér eða taka þátt í nefndavinnu svo vikum og mánuðum skiptir og fá greidd laun af skattfé almennings.“

Vandasamt er að meta hlutlægt hvernig þingmenn, og ef út í það er farið margt vinnandi fólk, sinnir starfi sínu. Einn mælikvarði á þingmenn er viðvera við atkvæðagreiðslur, sem þó segir aðeins takmarkaða sögu. Samkvæmt upplýsingum af vef Alþingis hafa farið fram 179 atkvæðagreiðslur síðan þingstörf hófust eftir sumarfrí um miðjan ágúst. Mikill munur er á viðveru eftir þingmönnum. Rétt um helmingur þeirra hefur verið viðstaddur 70% atkvæðagreiðslnanna eða fleiri. Aftur á móti er tæplega fimmtungur þingmanna með um 50% viðveru eða minna.

Þetta er myndin sem blasir við ef talin eru öll skiptin sem þingmaður hefur ekki verið viðstaddur, en ýmsar gildar ástæður geta verið fyrir fjarveru, til að mynda veikindi eða stuttar vinnuferðir, en allur gangur er á hversu vel slíkt er skráð á vef þingsins. Þá þarf að hafa í huga að atkvæðagreiðslur fara oft fram í lotum, þannig að þingmaður sem er fjarverandi einn dag getur þannig jafnvel misst af tugum atkvæðagreiðslna.

Steinunn Þóra Árnadóttir Vinstri grænum hefur verið viðstödd allar 179 atkvæðagreiðslur haustþingsins. Framsóknarmaðurinn Willum Þór Þórsson kemur næstur með 99,4% viðveru, þá Ásta Guðrún Helgadóttir Pírati og Þórunn Egilsdóttir Framsóknarflokknum, báðar með 98,9% viðveru, og Vilhjálmur Bjarnason Sjálfstæðisflokknum með 98,3%. 11 aðrir þingmenn eru með yfir 90% viðveru. Þar á meðal er málshefjandi gærdagsins, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, með 96,6%.

Þeir sem raða sér í fimm neðstu sætin eru allir með innan við þriðjungs viðveru. Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra hefur verið viðstaddur 29,1% atkvæðagreiðslna í haust. Ögmundur Jónasson Vinstri grænum er með 26,8% viðveru, og Höskuldur Þórhallsson Framsóknarflokknum 24,6%. Ekki náðist í Ögmund og Höskuld í dag til að leita skýringa.

Björt Ólafsdóttir Bjartri framtíð er með 23,5% viðveru. Hún á eins árs tvíbura og segir að fjarveran skýrist að hluta af veikindum þeirra og vinnuferð til útlanda. Þá séu atkvæðagreiðslur tilkynntar með skömmum fyrirvara sem hamli barnafólki. Ef litið væri til viðverunnar á kjörtímabilinu í heild og nefndavinnu væri myndin önnur.

Langneðstur er svo Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, sem hefur ekki verið viðstaddur eina einustu atkvæðagreiðslu frá því þing kom saman um miðjan ágúst. Sigmundur segist í skilaboðum til fréttamanns hafa verið nokkuð upptekinn við að verjast ítrekuðum tilraunum til að fella hann sem formann flokksins.

 

Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV