Mistókst að leika eftir för Heyerdals

18.03.2016 - 04:49
epa05217369 A handout picture made available on 18 March 2016 by the Chilean Navy shows members of the Chilean Navy rescuing  a Norwegian scientific expedition on board of two wooden rafts without motor in Puerto Montt, Chile, 17 March 2016. The
 Mynd: EPA  -  EFE/ARMADA DE CHILE
För fjórtán sæfara, sem hugðust leika eftir Kon-Tiki leiðangri Thors Heyerdal, tók enda í gær þegar björgunarskip frá Chile bjargaði þeim úr hrakningum. Áhöfn flekanna kennir veðurfyrirbrigðinu El Nino um sterka vinda sem gerði henni erfitt fyrir.

Leiðangurinn hófst í Perú í nóvember og hélt af stað til Páskaeyjar. 43 daga tók að komast á leiðarenda og lagði áhöfnin af stað til baka í janúar. Breska ríkisútvarpið, BBC, hefur eftir Torgeir Higraff, forsprakka leiðangursins, að ákveðið hafi verið að leita björgunar vegna óvenjulegra vinda. Ferðin til Suður-Ameríku hafi tekið of langan tíma og til þess að gæta öryggis allra væri best að hætta við.

Hann segir El Nino orsök óvenjulegs veðurs sem áhöfnin þurfti að takast á við. Á eðlilegu ári væri leiðangrinum lokið, en þess í stað væru þau stödd hundruðum kílómetra frá Suður-Ameríku og veðurspáin líti hreint ekki vel út. Áhöfnin sendi neyðarkall á miðvikudag. Sjóher Chile segir flekana hafa verið um 1.600 kílómetrum vestan Perú þegar áhöfninni var bjargað. 

Upprunalegi Kon-Tiki leiðangurinn var farinn árið 1947. Þá sigldi Norðmaðurinn Thor Heyerdal sams konar fleka frá Perú til Pólýnesíu eyjaklasans í Kyrrahafi. Leiðangurinn heppnaðist og urðu sagnfræðingar þess tíma margir að endurskoða hugmyndir sínar um fólksflutninga fyrri tíma.

 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV