Mistök flugstjóra hafi valdið slysinu

19.06.2017 - 09:12
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur skilað lokaskýrslu vegna flugslyss sem varð í Hlíðarfjalli í ágúst 2013. Kemst nefndin að þeirri niðurstöðu að mistök flugstjóra hafi valdið slysinu.

Flugvél Mýflugs hrapaði 5. ágúst 2013 á akstursbraut Bílaklúbbs Akureyrar fyrir ofan Akureyri. Um borð voru flugstjóri, flugmaður og sjúkraflutningamaður. Flugstjórinn og sjúkraflutningamaðurinn létust og flugmaðurinn slasaðist töluvert. Samkvæmt innri athugun Mýflugs var engu áfátt hvað varðar útbúnað og viðhald vélarinnar eða hvíld flugmanna. 

Verklagsreglum ekki fylgt

Skýrsla rannsóknarnefndarinnar styður þessa niðurstöðu og vísar til þess að mannleg mistök áhafnar hafi valdið slysinu.

Samkvæmt nefndinni var vélinni flogið of lágt. Þá hafi verið tekin mjög kröpp beygja sem varð til þess að vélin missti enn frekar hæð og hrapaði. 

Telur nefndin að akstursíþróttakeppni á svæðinu hafi mögulega náð athygli flugstjórans og truflað hann. Þá telur nefndin að verklagsreglum hafi ekki verið fylgt að öllu leyti og samvinnu áhafnar hafi verið ábótavant. Þó að áhöfn hafi rætt flugið fyrirfram, þá hafi ferðin ekki verið skipulögð nákvæmlega.  

Litið í eigin barm 

Mýflug sendi frá sér fréttatilkynningu í kjölfar birtingar skýrslunnar. Kemur þar fram að mikill léttir sé að rannsókninni sé lokið. Á meðan rannsókninni stóð hafi félagið, eftir bestu getu, litið í eigin barm. 

„Nú þegar skýrslan er komin munum við í samstarfi við þessa sömu aðila sjá til þess að tillögum í öryggisátt verði fylgt í hvívetna,“ segir í tilkynningunni frá Mýflugi. 

fréttin verður uppfærð