Misskipt loftgæði

23.05.2011 - 12:17
Mynd með færslu
Mörg hundruð sinnum meira er af svifryki í andrúmsloftinu þar sem öskufall er mest en á höfuðborgarsvæðinu.

Um 200 míkrógrömm  í rúmmetra af svifryki mældust í höfuðborginni í nótt. Á þeim svæðum þar sem öskufall hefur verið mest getur þessi tala skipt tugum þúsunda míkrógramma í rúmmetra.

Almenn heilsuverndarmörk á klukkustundarmeðaltali svifryks eru 50 míkrógrömm í rúmmetra. Fari þau yfir 100 míkrógrömm gætu þeir sem eru með viðkvæm öndunarfæri fundið fyrir óþægindum. Þegar komið er um og yfir 400 míkrógrömm þarf allur almenningur að gera ráðstafanir.

Samkvæmt mælingum í Reykjavík fór svifryk mest upp í 200-300 míkrógrömm í gærkvöld og nótt. Í morgun hefur hins vegar lítið mælst og eru loftgæði með ágætum.

Hins vegar þyngist loftið þegar austar dregur.  Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur á Umhverfisstofnun segir að í raun myndi ekkert þýða að seta upp mæla því þeir myndu yfirfyllast á skömmum tíma.

Hins vegar segi sjónrænt mat, ásamt samanburði við það sem mældist í Eyjafjallajökulsgosinu, að styrkurinn skipti tugum þúsunda míkrógramma í rúmmetra.  Dæmi eru um að þrjátíu þúsund míkrógrömm hafi mælst.

Við slíkar aðstæður heldur fólk sig innandyra og fer ekki út á grímu og gleraugna, nema í brýnustu erindum. Þetta er alltaf spurning um magn og þó að menn andi að sér ösku í Reykjavík er það ekki stórmál en þegar þetta er orðið svona þétt eins og á Kirkjubæjarklaustri.

Þá er best að nota allar varúðarráðstafnir sem hægt er, vera með grímu og gleruagu og halda börnum innan dyra.