Minnsti hagvöxtur í Kína í aldarfjórðung

20.01.2016 - 22:33
epa05110265 Citizens walk past commercial establishments at the shopping area of Qianmen district in Beijing, China, 19 January 2016. China's economy grew 6.9 percent in 2015, according to official figures released 19 January, marking the slowest
 Mynd: EPA
Hagvöxtur í Kína í fyrra var sá minnsti í aldarfjórðung. Minnkandi hagvöxtur í Kína hefur áhrif á heimsvísu, meðal annars með lækkuðu verði á áli.

Undanfarin áratug hefur verið mikill hagvöxtur í Kína, en hagkerfi Kína er það annað stærsta í heiminum á eftir Bandaríkjunum. Árið 2015 var hagvöxturinn í Kína sá minnsti síðan árið 1990 eða í tuttugu og fimm ár. Á ársgrundvelli var hagvöxturinn 6,9 prósent, en stjórnvöld höfðu spáð sjö prósenta hagvexti. Árið áður hafði hann verið 7,3 prósent.

Gylfi Magnússon, dósent í fjármálum við Háskóla Íslands, segir það í raun ekki skrýtið að dregið hafi úr hagvexti eftir hraðan hagvöxt í landinu í svo langan tíma. „Kínverska hagkerfið hefur byggt mjög mikið á útflutningi og fjárfestingu innanlands og nú eru þeir komnir í vanda með hvort tveggja. Útflutningsatvinnuvegirnir eiga í vök að verjast og það eru skýr merki um offjárfestingu og vandamál, til dæmis banka sem hafa fjármagnað allskonar fasteignaframkvæmdir, þannig að allt kemur þetta saman núna og þeir eiga dálítið erfitt með að vinna úr þessu,“ segir Gylfi. 

Sumir sérfræðingar telja hagvöxtinn í raun enn lægri en yfirvöld í Kína hafa gefið út, og sé jafnvel nær 4,5%.

Mikið hrun hefur verið á mörkuðum á Kína undanfarið og það ásamt lækkuðu olíuverði veldur titringi á mörkuðum annars staðar í Asíu, Evrópu og Bandaríkjunum. Kínverjar eru stór kaupandi að hrávörum, svo sem olíu, og því hefur það áhrif þegar hægir á kínverska hagkerfinu. „Það er tvímælalaust ástæða til að hafa áhyggjur allavega fyrir þá sem eiga mikið undir þarna fyrir austan. Þetta hefur haft nú þegar verulega áhrif á hrávörumarkaði og þar með lönd sem flytja út hrávörur, Ástralir til dæmis selja mikið til Kína, sem finna mikið fyrir þessu. Og þetta hefur svosem áhrif hérna til dæmis í gegnum álverðið,“ segir Gylfi.

Hrun á mörkuðum í dag

Mikið verðfall varð á mörkuðum um allan heim í dag vegna lækkandi olíuverðs. FTSE vísitalan í Lundúnum fór niður um nærri þrjú og hálft prósent, DAX í Frankfurt og CAC í París lækkuðu um tæp þrjú, og helstu vísitölur á Wall Street vestanhafs hafa lækkað um sama hlutfall. Flestir markaðir hafa lækkað um tuttugu prósent eða meira frá því sem þeir hafa hæst farið á síðustu vikum. Í Japan hefur hlutabréfaverð ekki verið lægra síðan í október 2014 og í Dúbai þarf að fara aftur um rúm tvö ár til að finna sama verð. Í Rússlandi hefur rúblan fallið umtalsvert í dag.