Minnst tíu íhuga forsetaframboð - samantekt

27.02.2016 - 19:56
Um 20 manns hafa ýmist boðað forsetaframboð, sagst vera að íhuga það eða ítrekað verið orðaðir við framboð. Tæplega fjórir mánuðir eru til kosninga.

Fjallað er um framboð fyrir forsetakosningar í sjónvarpsfréttinni hér að ofan og spáð í hvenær er líklegt að framboðsmálin skýrist. Ólafur Ragnar Grímsson tilkynnti á nýársdag að hann ætlaði ekki að bjóða sig fram til forseta aftur.

Nú þegar tæplega fjórir mánuðir eru til kosninga hafa fimm ýmist boðað framboð eða gefið sterklega til kynna að þeir ætli í framboð: 

 • Ari Jósepsson vídjóbloggari
 • Ástþór Magnússon athafnamaður
 • Elísabet Jökulsdóttir rithöfundur
 • Hildur Þórðardóttir þjóðfræðingur
 • Þorgrímur Þráinsson rithöfundur

Nokkrir til viðbótar hafa í fjölmiðlum sagst vera að íhuga framboð:

 • Andri Snær Magnason rithöfundur
 • Halla Tómasdóttir athafnakona
 • Hrannar Pétursson, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Vodafone
 • Linda Pétursdóttir athafnakona
 • Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands
 • Sigrún Stefánsdóttir, forseti hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri
 • Stefán Jón Hafstein, umdæmisstjóri þróunarsamvinnu Íslands í Úganda
 • Sturla Jónsson vörubílstjóri
 • Vigfús Bjarni Albertsson sjúkrahúsprestur
 • Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, forstöðumaður hjá Samtökum atvinnulífsins

Þá hefur nafn Össurar Skarphéðinssonar, fyrrverandi utanríkisráðherra, verið mikið í umræðunni, og Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, hefur notið mests stuðnings í könnunum. Bergþór Pálsson söngvari og Ólafur Jóhann Ólafsson, rithöfundur og aðstoðarforstjóri Time Warner, hafa einnig verið nefndir. Ekkert þeirra hefur sagt af eða á um framboð. Listinn er ekki tæmandi.

Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV