Minnst þrjú dauðsföll í Charlottesville

12.08.2017 - 23:19
epa06141257 A handout photo made available by the Virginia State Police shows heavily-armed men in camouflage clothing and tactical gear marching at the Charlottesville rally in Charlottesville, Virginia, USA, 12 August 2017. According to media reports at
Það voru fleiri en lögreglan sem voru vopnaðir þegar nokkrar hreyfingar sem predika yfirburði hvíta kynstofnsins söfnuðust saman til útifundahalda í Charlottesville í Virginíu. Þarna sjást nokkrir þungvopnaðir fundargestir marsera til fundarins.  Mynd: EPA  -  Virginia State Police
Þrjár manneskjur létust í tengslum við átök andstæðra fylkinga í borginni Charlotteville í Virginíu í Bandaríkjunum á laugardag. Maurice Jones, borgarritari Charlotteville, tilkynnti þetta á fréttamannafundi í gærkvöld. Nýnasistar, Ku Klux Klan og fleiri hópar ostækisfullra þjóðernissinna stóðu fyrir útifundum í borginni á laugardag undir slagorðinu „Sameinum hægri vænginn" og sló í brýnu með þeim og hópi fólks, sem safnaðist saman til að mótmæla málflutningi þeirra og fundarhöldum.

Ein kona dó þegar maður ók bíl sínum vísvitandi inn í hóp andstæðinga öfga-þjóðernissinnanna. Hún var 32 ára gömul og var að ganga yfir götu þegar ekið var á hana, að sögn lögreglustjórans í Charlotteville, Al Thomas. 19 slösuðust í ákeyrslunni, sumir alvarlega. Ökumaðurinn hefur verið handtekinn og er málið rannsakað sem morð.

Þá fórust tveir lögreglumenn þegar þyrla sem þeir notuðu við eftirlitsstörf hrapaði spölkorn frá samkomustað öfgahreyfinganna. Tildrög slyssins eru óljós og ekkert liggur fyrir um hvort það tengist á einhvern hátt atburðum á jörðu niðri. Málið er í rannsókn.  Undir kvöld höfðu ekki færri en 35 leitað sér aðstoðar vegna meiðsla sem þau höfðu orðið fyrir í átökum dagsins, allt frá skrámum upp í lífshættulega áverka.

Terry McAuliffe, ríkisstjóri í Virginíu, lýsti á laugardag yfir neyðarástandi í Charlottesville vegna átakanna. AÐ kvöldi laugardags fordæmdi Donald Trump Bandaríkjaforseti hatrið og ofbeldið sem birtist í átökunum í Charlottesville og sagði Bandaríkjamenn verða að sameinast í föðurlandsást sinni. 

Fréttin hefur verið uppfærð.