Minnst 20 látnir í árás á hótel í Burkina Faso

16.01.2016 - 02:19
In this grab taken from video by Associate Press Television, two unidentified armed men approach a vehicle, near to a hotel,  in Ouagadougou, Burkina Faso, Friday, Jan. 15, 2016.  Attackers struck an upscale hotel popular with Westerners in Burkina Faso&
 Mynd: AP  -  Associated Press Television
Byssumenn réðust inn í hótel í Ouagadougou í Burkina Faso í kvöld og felldu minnst tuttugu manns. Ekki færri en fimmtán eru særðir. Vígamennirnir eru enn á hótelinu, þar sem þeir halda fjölda fólks í gíslingu. Björgunaraðgerð mun vera í uppsiglingu eða þegar hafin.

Þrír eða fjórir grímuklæddir menn réðust inn í Splendid-hótelið um klukkan hálf átta í kvöld, skömmu eftir að tvær bílsprengjur sprungu þar fyrir utan. Sjónarvottar bera að þeir hafi fyrst ráðist inn í kaffihús þar nálægt, og fellt nokkra sem þar voru inni.

Sjónarvottar bera að öryggissveitir, jafnvel með þátttöku franskara hermanna í borginni, séu að undirbúa að ráðast inn í hótelið og séu jafnvel þegar komnir inn. Skothríð hefur heyrst innan úr hótelinu og einnig er haft eftir sjónarvottum að eldur sér laus í byggingunni.

Alpha barry, utanríkisráðherra Burkina Faso, sagði fyrr í kvöld að hann útilokaði ekki að þiggja aðstoð franska hersins. Þá hafa bandarísk yfirvöld boðið Frökkum að nýta sér viðveru 75 bandarískra hermanna á svæðinu, fari svo að þeir taki þátt í tilraun til að frelsa gíslana.

Talið er að menn sem tilheyra afrískum armi Al-Kaída hryðjuverkasamtakanna séu að verki, en gestir Splendid-hótelsins eru flestir erlendir ferðamenn og starfsfólk Sameinuðu þjóðanna í borginni.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV