Milljónir í snjómokstur

12.02.2016 - 11:49
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV  -  Ágúst Ólafsson
Akureyrarbær hefur varið tíu til tólf milljónum króna í snjómokstur síðustu þrjá daga. Snjór hefur enda fallið í miklum mæli undanfarið og frá mánaðamótum hafa fallið um 60 sentímetrar af uppsöfnunum snjó. Það hefur kallað á mikinn snjómokstur. Samhliða því safnaðist snjór víða í mikla hauga sem skapað geta hættu í umferðinni. Smám saman er unnið að því að fjarlægja þá hauga.

Samkvæmt upplýsingum frá Akureyrarbæ er útlit fyrir að samanlögð snjódýpt vetrarins verði á bilinu þrír til þrír og hálfur metri. Það er nokkuð meira en í fyrra þegar snjórinn sem féll jafngilti 2,95 metrum.

Snjómokstur á vegum bæjarins kostaði 143 milljónir króna í fyrra, þar af 46 milljónir í desember. Árið áður fór 151 milljón króna í snjómokstur. Gert er ráð fyrir 105 milljónum króna í snjómokstur á þessu ári en síðustu ár hefur verið bætt við aukafjárhæð undir lok árs þegar mokstur hefur verið umfram spár. 

 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV