Milljóna bílastyrkir prests til rannsóknar

23.01.2016 - 19:05
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV  -  Skjáskot
Kirkjuráð og Ríkisendurskoðun hafa til rannsóknar bílastyrki upp á milljónir króna sem sóknarnefndir í Njarðvíkurprestakalli hafa greitt sóknarprestinum undanfarin ár. Kirkjuráð lítur málið alvarlegum augum. Sóknarnefndum er óheimilt að styrkja það sem fellur undir embættiskostnað presta. Formenn sóknarnefndanna segja að ákveðið hafi verið að presturinn nyti sömu kjara og forveri hans, sem hafi fengið laun frá sóknunum ofan á laun frá ríkinu.

Kirkjuráð hefur hafið úttekt á fjármálum Njarðvíkurprestakalls. Undir prestakallið heyra þrjár kirkjur; kirkjurnar í Ytri- og Innri Njarðvík auk Kirkjuvogskirkju í Höfnum. Prestur í sóknunum þremur er séra Baldur Rafn Sigurðsson. Samkvæmt upplýsingum frá kirkjuráði varðar málið greiðslur sóknarnefndanna þriggja á bílastyrkjum til séra Baldurs, sem hann fær vegna aksturs í sínu starfi. Kirkjuráð, sem fer með framkvæmdarvald í málefnum þjóðkirkjunnar, lítur málið alvarlegum augum og segir að það verði tekið föstum tökum.

„Það er rétt að það barst erindi vegna þriggja sókna. Það erindi varðar fjárreiður sóknarinnar og viðbrögð kirkjuráðs er að láta fara fram úttekt,“ segir Svana Helen Björnsdóttir, kirkjuráðsmaður.

Ríkisendurskoðun hefur verið fengin til að aðstoða við úttektina.

„Nú eru lögin þannig að Ríkisendurskoðun framkvæmir ekki lengur svona úttektir. En kirkjuráð framkvæmir þessa úttekt sjálft með stuðningi frá Ríkisendurskoðun,“ segir Svana Helen.

Í starfsreglum um sóknarnefndir segir meðal annars: „Sóknarnefnd er hvorki heimilt að greiða laun vegna prestverka né styrkja það sem fellur undir embættiskostnað presta og prófasta, sbr. starfsreglur um rekstrarkostnað prestsembætta og prófastsdæma.“ Svana Helen segir þetta líka eiga við um greiðslu bílastyrkja.

„Já það verður að skilja starfsreglur um sóknir þannig að það sé óheimilt. En ég er ekki þar með að segja að þetta sé þannig í þessu tilviki. Það á eftir að skoðast og við erum að kalla eftir ársreikningum fyrir árin 2012, 2013 og 2014. Þannig byrjar úttekt okkar.“

88 þúsund krónur á mánuði 

Séra Baldur hefur ekki svarað óskum fréttastofu um viðtal vegna málsins. Fréttastofa fékk hins vegar skriflegt svar frá formönnum sóknarnefndanna þriggja. Í svarinu segir að innan prestakallsins búi tæplega 7.400 manns á stóru svæði. Þegar séra Baldur var skipaður fyrir 24 árum hafi sóknarnefnd ákveðið að hann nyti sömu kjara og forveri hans, sem hafi fengið laun frá sóknunum ofan á laun frá ríkinu. Akstursgreiðslurnar séu til þess að séra Baldur geti sinnt sóknarbörnum í öllu prestakallinu, án þess að þurfa að bera aukakostnað sem hlýst af akstri. Nú fái hann greitt fyrir 800 km akstur á mánuði. Það nemur 88.000 krónum á mánuði eða rúmri milljón á ári. Það sem Biskupsstofa greiði séra Baldri í gegnum embættiskostnað dekki eingöngu lítinn hluta þess kostnaðar. Sóknarnefndir hafi samþykkt þessar greiðslur og reikningar hafi verið samþykktir á aðalsafnaðarfundum.

Aðspurð segir Svana Helen að séra Baldur fái akstursgreiðslur með launum sínum, og því bætist þessar greiðslur við. „Hann á að fá greitt fyrir akstur sem hluta af launum eða sem viðbót við laun, sem eðlilega greiðslu.“

Almennt séð, ef prestur þarf að keyra langt vegna brúðkaups, jarðarfarar, eða slíkrar athafnar, hver greiðir það?

„Þetta á allt að vera inni í akstursgreiðslum prests.“

Svana Helen vill ekki segja hversu háar upphæðir í heild sé verið að skoða.

„Ég vona bara að þetta mál leysist farsællega og verði skýrt. Ég held að þetta mál sé áminning til allra í sóknarnefndum að vanda sig þegar kemur að fjármálum sóknanna.“

Komi í ljós að þarna hafi verið farið á svig við reglur, hvaða afleiðingar hefur það?

„Ég get ekki greint frá því á þessu stigi,“ segir Svana Helen.

Greiðslur til að efla starfið

Yfirlýsing formanna sóknarnefndanna þriggja er svohljóðandi í heild sinni:

Jóhann Bjarni Kolbeinsson fréttmaður hjá Rúv.

Varðandi fyrirspurn þína til sr. Baldurs í gær vitum við ekki hvaða gögn þú hefur undir höndum en rétt er að geta þess að sóknarnefndir í Njarðvíkursókn, Ytri-Njarðvíkursókn og Kirkjuvogssókn hafa verið í góðu sambandi við biskupstofu um þau fjármál sóknanna. Þar sem við höfum engin gögn undir höndum  er varða fyrirspurn þína getum við sagt almennt um þann bifreiðastyrk sem greiddur er til sóknarprests.

Innan Njarðvíkurprestakalls búa tæplega 7400 manns þegar þetta er ritað og nær yfir stór  landssvæði er markast af Ytri-Njarðvíkursókn, Njarðvíkursókn og Kirkjuvogssókn. Þessu stóra prestakalli hefur sr. Baldur Rafn Sigurðsson þjónað einn og hefur hann verið vakandi og sofandi yfir sóknarbörnum sínum þau 24. ár sem hann hefur þjónað prestakallinu.

Þegar hann var ráðinn sem sóknarprestur í Njarðvíkurprestakalli lá fyrir samningur milli Ytri-Njarðvíkursóknar og forvera hans sem var samsvarandi öðrum samning er gert hafði verið við annan sóknarprest á Suðurnesjum þar sem þeim voru greidd laun frá sóknunum ofan á laun frá ríkinu. Sóknarnefnd leit svo á að til að styðja starf prestanna bæri þeim að gera allt sem í þeirra valdi stóð til að aðstoða þá. Þegar sr. Baldur var skipaður sóknarprestur ákvað  sóknarnefnd að hann nyti sömu kjara og forveri hans. Fljótlega var launagreiðslum breytt þar fram komu ábendingar um það réttara væri að sóknarnefnd greiddi bifreiðarstyrk til sóknarprests frekar en laun því það var á þeim tíma talið verið rétt að hann fengi greiddan kostnað af þeim akstri sem hann innti af hendi frekar en laun. Sóknarnefnd Njarðvíkursóknar sem þá hét Innri-Njarðvíkursókn kom einnig að akstursmálum og greiddi sóknarprestinum fyrir akstur. Í báðum sóknarnefndum  var litið á það sem svo að þeim bæri að styðja og styrkja  það starf sem sóknarprestur hafði með höndum og öll þau mál sem hann annaðist fyrir hönd sóknarnefnda og þurfti aksturs við. Akstursgreiðslurnar hafa verið til þess að efla starfið og til að sr. Baldur gæti sinnt sóknarbörnum í öllu prestakallinu, stofnunum á Suðurnesjum og fleiri stöðum  s.s. á spítölum á höfuðborgarsvæðinu. Er það gert til að hann þurfi ekki að bera aukakostnað sem hlýst af akstri í þágu starfa hans fyrir sóknarbörn. Nú fær sr. Baldur greitt fyrir 800 km. á mánuði og miðast kostnaður á km. við úrskurð Ferðakostnaðarnefndar ríkisins.

Það sem biskupstofa greiddi sóknarprestinum í gegnum embættiskostnað dekkaði ekki nema lítinn hluta þess kostnaðar. Allt það sem greitt hefur verið í akstur til sr. Baldurs hefur verið samþykkt í sóknarnefndum, en allt sem sóknarnefndir hafa síðan samþykkt s.s. fjárútlát og annað er varðar safnaðarstarf hefur síðan verið borið réttlega upp á löglega boðuðum aðalsafnaðarfundum sem haldnir hafa verið einu sinni á ári og reikningar samþykktir.

Sóknarnefndirnar eru sjálfstæðar og þær annast fjármál sóknanna en þær eru grunn eining þjóðkirkjunnar. Þær akstursgreiðslur sem sóknarnefndir hafa greitt til sóknarprestsins komu eingöngu frá Njarðvíkursókn og Ytri-Njarðvíkursókn en þar sem Kirkjuvogssókn var fjárvana var litið á það sem svo að stærri sóknirnar aðstoðuð hana til þess að sóknarprestur gæti einnig ekið í hennar þágu.

Upp úr síðustu aldamótum eða í rúm 16. ár hefur reglulega verið fjallað um bifreiðamál sr. Baldur í dagblöðum og hefur þar DV verið fremst í flokki. Greiðslu vegna akstur til hans frá sóknarnefndum  hefur aldrei verið haldið leyndum fyrir nokkrum og biskupstofa vitað af þessum greiðslum, hvað nú er nýtt í málinu er óljóst.

Virðingarfyllst

Kristján Friðjónsson sóknarnefndarformaður Ytri-Njarðvíkursóknar.

Jakob Sigurðsson sóknarnefndarformaður Njarðvíkursóknar.

Árni Hinrik Hjartarson sóknarnefndarformaður Kirkjuvogssóknar.

Mynd með færslu
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV