Milljarðaframleiðsla Furious 8 hér á landi

26.01.2016 - 22:05
Tökur á áttundu kvikmyndinni í myndaflokknum Fast and the Furious verða með þeim umfangsmestu sem ráðist hefur verið í hér á landi. Samkvæmt heimildum fréttastofu verða tökudagarnir hér á landi um þrjátíu sem er á pari við kvikmyndirnar Noah og The Secret Life of Walter Mitty. Endurgreiðslur vegna síðarnefndu myndarinnar námu 275 milljónum - því má vel gera ráð fyrir því að framleiðslukostnaður Furious 8 hér á landi verði vel yfir einn milljarð.

RÚV greindi frá því í byrjun mánaðarins að tökulið myndarinnar hefði skoðað hér aðstæður og væri spennt fyrir því að koma hingað til lands. Tveimur dögum áður hafði framleiðslufyrirtækið Truenorth stofnað fyrirtæki í kringum tökurnar hér á landi - það er gert til að eiga rétt á endurgreiðslu á framleiðslukostnaði úr ríkissjóði.

Visir.is greindi frá því í dag að tökur á myndinni færu að einhverju leyti fram á Akranesi - bæjarstjórinn þar greindi frá þessu á þorrablóti sveitarfélagsins. Skessuhorn bætti um betur og upplýsti að 80 tryllitæki yrðu flutt til landsins fyrir tökurnar.

Nútíminn sagði svo frá því í kvöld að tökuliðið yrði einnig að störfum fyrir norðan - nánar tiltekið í Mývatnssveit. Það vildi kaupa fjögur skip og sprengja upp eitt þeirra. 641.is, sem flytur fréttir úr Þingeyjarsýslu, sagði svo frá því að búið væri að bóka næstum allt laust gistipláss í Mývatnssveit vegna myndarinnar í mars.

Samkvæmt heimildum fréttastofu eru tökurnar mjög umfangsmiklar - tökudagarnir verða þrjátíu og því nemur framleiðslukostnaður myndarinnar hér á landi rúmum milljarði sé horft til kvikmynda á borð við Walter Mitty og Oblivion. Eftir því sem fréttastofa kemst næst verður tökuliðið einnig á ferðinni í kringum höfuðborgarsvæðið.

Leifur Dagfinnsson, framleiðandi hjá Truenorth, vildi ekki tjá sig við fréttastofu þegar eftir því var leitað.

Furious-myndaflokkurinn er einn sá allra vinsælasti - tekjur af miðasölu síðustu myndarinnar námu til að mynda 353 milljónum dollara.  

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV