Milljarða gróði af grænmeti

01.02.2016 - 15:57
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bananar ehf, dótturfyrirtæki Haga hf og stærsti heildsali ávaxta og grænmetis á Íslandi, hefur greitt Högum á fimmta milljarð króna í arð á síðastliðnum fjórum árum. Umsvifin 10% af veltu Haga en gróðinn 20% af hagnaði Haga. Forstjóri Haga segir í viðtali við Kastljós í kvöld að fyrirtækið sé einfaldlega vel rekið. Þó hagnaður þess ívið hærri en hagnaður annarra fyrirtækja Haga, sé hann ekki óeðlilegur. Forsvarsmenn Haga stjórni ekki álagningu fyrirtækisins, heldur sjálfstæð stjórn.

Bananar ehf er stærsti heildsali ávaxta, grænmetis og kartaflna á Íslandi. Samkvæmt tölum sem Samkeppniseftirlitið birti í skýrslu sinni árið 2012 er markaðshlutdeild fyrirtækisins allt að 60%. 

Hagar hf eiga Banana ehf, en auk þess reka Hagar matvöruverslanirnar Bónus og Hagkaup, sem hafa tæplega 50% markaðshlutdeild á sínum markaði. Viðskiptavinir Banana á matvörumarkaði eru þó mun fleiri auk stórs hluta veitingageirans.

Undanfarin fjögur ár hefur ársvelta Banana verið á milli 7 og 8 milljarðar króna á ári. Hagnaður hvers árs hefur verið um og yfir 900 milljónir króna hvert ár. Á þessum fjórum árum hefur félagið greitt Högum 4,25 milljarða króna í arð, rúmlega hálfa ársveltu fyrirtækisins. Mest var greitt í arð árið 2012, eða 2,2 milljarða króna. 

Samkvæmt tölum úr nýjasta ársreikningi beggja félaga er velta velta Banana um það bil 10% af veltu Haga, en hagnaður allt að 20% af heildarhagnaði Haga. Í Kastljósi í kvöld verður rætt við Finn Árnason forstjóra Haga um nýja skýrslu Bændasamtaka Íslands um matvælaverð. Spjótum er þar einkum beint að versluninni og skattalækkanir sem og gengisbreytingar sagðar hafa endað þar, en ekki hjá neytendum.

Spurður að því hvort ekki sé svigrúm til að lækka verð til neytenda af vörum eins og þeim sem Bananar flytja inn og selja, í ljósi svo hagnaðar undanfarinna ára, sagði Finnur að vissulega væri hagnaður Banana lítið eitt hærri en af öðrum einingum Haga. Fyrirtækið væri vel rekið og hagnaður þess ekki óeðlilega mikill. Álagningu Banana sé ekki stjórnað af Högum, heldur lúti það sjálfstæðri stjórn.

Hann fer í viðtalinu hörðum orðum um skýrslu Bændasamtakanna og svarar fyrir gagnrýni á of hátt vöruverð hér á landi, og tölur sem benda ótvírætt til þess að vöruverð til neytenda sé hærra en það ætti að vera eftir styrkingu krónunnar. 

Rætt verður við forstjóra Haga í Kastljósi í kvöld.