Milljarða gjaldeyristekjur af ráðstefnum

18.03.2013 - 13:00
Mynd með færslu
Halldór Guðmundsson, forstjóri Hörpu, áætlar að gjaldeyristekjur af ráðstefnuhaldi í húsinu geti numið allt að fjórum milljörðum króna í ár. Helmingi fleiri ráðstefnur eru bókaðar í Hörpu á þessu ári en í fyrra.

Árið 2011 gerði Hagfræðistofnun Háskóla Íslands úttekt á því hversu miklum tekjum mætti ætla að ráðstefnuhald í Hörpu skilaði þjóðarbúinu. Halldór Guðmundsson, forstjóri Hörpu, hefur uppfært spána sem miðar við sömu forsendur en tekur mið af áætluðum fjölda erlendra ráðstefnugesta í ár. 
„Ráðstefnubókanir í Hörpu árið 2013 eru helmingi fleiri en árið 2012. Okkur sýnist að miðað við það sem menn áætla meðaleyðslu ferðamanns sem kemur á ráðstefnu til Íslands að gjaldeyristekjur í tengslum við ráðstefnuviðburði í Hörpu geti orðið allt að fjórir milljarðar,“ segir hann. 

Þegar hafa verið bókaðar fjórtán alþjóðlegar ráðstefnur í Hörpu í ár, sem þúsundir erlendra gesta sækja. Halldór áætlar að miðað við hóflega fjölgun erlendra ráðstefnugeta geti gjaldeyristekjur af ráðstefnuhaldi í Hörpu numið allt að 24 milljörðum króna á næstu fimm árum. Áætlanirnar gera ráð fyrir að erlendir ráðstefnugestir eyði um 60 þúsund krónum á dag hér á landi. Inni í því er kostnaður við flug, gistingu, verslun og neyslu. „Þetta skilar sér til ferðaþjónustuaðila, hótela, veitingahúsa og allra mögulegra annarra aðila hér í bænum og í landinu en einungis mjög lítill hluti af þessu fer til Hörpu.“