Miklar líkur á gosi undir jökli

28.02.2015 - 20:01
Mynd með færslu
Í ljósi sögunnar og með hliðsjón af legu eldstöðvakerfisins í Bárðarbungu eru miklar líkur á því að það verði gos undir jökli með tilheyrandi öskufalli og flóðum, segir Kristín Jónsdóttir, fagstjóri jarðvár á Veðurstofu Íslands.

„Það er alveg ljóst að Bárðarbunga er farin af stað. Þetta er hrinukennd virkni og það er hafið tímabil aukinnar virkni í Bárðarbungu þannig að það eru mestar líkur á að það verði fleiri gos þarna í kjölfarið,“ sagði Kristín í sjónvarpsfréttum en sagði að á þessari stundu væri erfitt að segja til um hvar eða hvenær næsta gos yrði.

Líta verður til gossögunnar og legu Bárðarbungu til að meta framhaldið. „Stór hluti af eldstöðvakerfinu er undir jökli þannig að það eru miklar líkur á því að það verði gos undir jökli með tilheyrandi öskufalli og flóðum.“ Á næstu árum gætu orðið all nokkur eldgos en hvort tveggja fjöldi þeirra og tímabil eru óljós.