Miklar framfarir en krafa um að gera betur

17.06.2017 - 12:05
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra lagði áherslu á mikinn árangur sem hefði náðst á Íslandi frá lýðveldisstofnun og á heimsvísu eftir lok seinni heimsstyrjaldar. Hann rakti hvernig meðalævin hefði lengst, hagur fólks batnað og miklar framfarir átt sér stað. „Með öðrum orðum: Lífið er sífellt að verða betra fyrir stærstan hluta mannkyns.“ Þrátt fyrir þetta væri meginboðskapurinn í stjórnmálum að heimur versnandi færi.

Bjarni sagði að vissulega væru mörg verkefni fyrir höndum. Stríð, hamfarir og hungursneyðir kölluðu á viðbrögð. Þessum atburðum hefði fækkað en það væri ekki nóg. „Við megum ekki slaka á. Við gerum kröfu um að gera betur.

Bjarni sagði norrænu ríkin eiga sameiginlegt að leggja áherslu á lýðræði, jafnrétti, jöfn tækifæri, mannréttindi og alþjóðleg viðskipti. Þetta væri mikilvægasta framlag Íslendinga og norrænu ríkjanna til heimsins. 

Öryggismál og hryðjuverkaógn komu líka við sögu í ræðu Bjarna. „Við verðum að varast að hér skapist jarðvegur fyrir hryðjuverk,“ sagði Bjarni. Hann sagði mestu máli skipta að landsmenn byggju áfram í öruggu umhverfi. Stjórnvöld myndu gera sitt til að tryggja það. Bjarni sagði lögreglu hafa sinnt saman verkefni af festu og vera verðug þess trausts sem hún hefði löngum notið.

Bjarni talaði um sjálfvirknivæðingu í atvinnulífi sem gæti fækkað störfum. Hann sagði ráðlegt að spá sem minnstu því spádómar gætu orðið hlálegir í framtíðinni. Hann sagði þó mikilvægt að nálgast ný verkefni og áskoranir af krafti. „Lykillinn er eftir sem áður að skapa skilyrði fyrir framtakssemi einstaklingana,“ sagði Bjarni. Hann sagði að vinnumarkaðurinn væri alltaf í þróun og sum störf legðust af meðan önnur ný yrðu til. Hann vísaði til breytinga í sjávarútvegi. Þar hefði störfum fækkað en laun hækkað.

Í ræðunni sagði Bjarni að hús íslenskunnar yrði risið á næsta ári, 2018, þegar hundrað ár verða liðin frá því að Ísland hlaut fullveldi sagði Bjarni. Hann virðist þó hafa mismælt sig því í skrifaðri útgáfu ræðunnar segir að þá hefjist framkvæmdir.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Mynd með færslu
Hátíðahöldin í Reykjavík hófust við Austurvöll í morgun.  Mynd: Kristín Sigurðardóttir  -  RÚV
Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV