Mikilvægt sé að vanda undirbúning

16.01.2016 - 17:02
Mynd með færslu
Borgarráðsfulltrúarnir Halldór Halldórsson og Júlíus Vífill Ingvarsson eru ósáttir með framkomu meirihlutans í garð Söngskólans.  Mynd: Anton Brink RÚV  -  RÚV Anton Brink
Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins vonast til að Sundabraut verði tekin til umræðu á næsta fundi borgarráðs. Mikilvægt sé að vanda til verka í undirbúningi fjárfrekra framkvæmda í samgöngum. Sundabraut opni möguleika í skipulagsmálum og á landi til uppbyggingar.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í umhverfis-og skipulagsráði fóru fram á það í október 2013 að farið yrði í viðræður við ríkið um framtíð Sundabrautar. Erindinu var á fundi umhverfis- og skipulagsráð 6. janúar síðastliðinn vísað vísað til umhverfis- og skipulagssviðs. Í umsögn samgöngustjóra fer hann yfir hvað hafi gerst frá hruni þegar verkefnið var lagt til hliðar og vísar áskorun um viðræður við ríkið til nánari umfjöllunar borgarráðs. 

Júlíus Vífill segir að viðræður þurfi við ríkið því Sundabraut teljist til þjóðbrautar í þéttbýlis og kostnaður myndi að langmestu leyti falla á ríkið. Hann vonast til að verkefnið verði sett í farveg í stað þess að hafa það inni á aðalskipulagi, þar sem það hafi verið frá árinu 1975, og gera ekkert í því. „Þá þurfa menn að byrja á byrjunarreit þegar þar að kemur að það vaknar áhugi fyrir þessu og það skapast efnahagslegar forsendur fyrir slíkri framkvæmd. Það mun taka talsverðan tíma og það er gott að vera búinn að klára það áður en að því kemur.“

Júlíus segir ljóst að ekki verði farið í að leggja Sundabraut á næstunni.  „En það er mjög mikilvægt að vanda til vel til verka þegar svo fjárfrek framkvæmd er framundan í vegagerð. Því miður hefur farið svo að stundum hafa menn ekki vandað undirbúninginn og það hefur orðið kostnaðarsamt fyrir þjóðina alla. Við verðum að varast að fara út í slíkt eða stunda slík vinnubrögð.“

Júlíus Vífill segir að þegar Grafarvogur var að byggjast á níunda áratugnum hafi íbúum þar verið lofað samgöngubótum. „Það fylgdu eiginlega loforð til þeirra sem fluttu í Grafarvoginn á sínum tíma að þarna myndi koma tenging við miðborg Reykjavíkur. Þeir sem búa í Grafarvogi núna væru nokkrar mínútur á leið niður í miðborg og það breytti miklu fyrir þá að ég held.“

Gerð Sundabrautar opni mikla möguleika í skipulagsmálum. Ljóst sé að Reykjavíkurborg fari að þurfa meira land til uppbyggingar. Auk þess að stytta leiðina norður með tengingu við þjóðveginn þá opnist möguleikar á uppbyggingu. „Í Geldingarnesi, sem er miklu stærra og betra til uppbyggingar en fólk hefur almennt gert sér grein fyrir, og í Álfsnesi og Gunnunesi þar sem stefna ætti að uppbyggingu iðnaðar- og atvinnuhúsnæðis.