Mikið álag á bráðadeild Landspítalans

19.01.2016 - 12:30
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Mikið álag er á bráðamóttöku Landspítalans þessa dagana. Ekki er pláss fyrir fjölda sjúklinga sem ákveðið hefur verið að leggja inn.

Það er ekki óvanalegt að það sé mikið álag á bráðadeild Landspítalans á þessum árstíma, en síðustu daga hefur álagið verið óvenjumikið. Sjúklingar hafa þurft að bíða klukkustundum saman og gríðarlega mikið að gera hjá starfsfólki.

Árstíðarbundna flensan er ekki farin að herja á fólk en talsvert hefur verið um upp- og niðurgangspest sem hefur truflað langveikt fólk. Þá hefur Landspítalinn verið í vandræðum með að útskrifa fólk, þannig að það dvelur lengur.

Það eru um það bil tuttugu sjúklingar sem ákveðið hefur verið að leggja inn en bíða þess að fá rúm á spítalanum. Í morgun komu stjórnendur spítalans saman til að funda um þessa erfiðu stöðu.

Sigríður Gunnarsdóttir er framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum. „Við tökum stöðumatsfund daglega og hann gengur út á að tryggja öryggi sjúklinga sem hér eru. Eitt af því sem við förum yfir og getur ógnað öryggi sjúklinga þegar það er mjög mikið álag og mjög mikið að gera. Staðan í dag og hefur verið síðustu daga er sú að það er mjög mikill innlagnarþungi eins og oft vill vera á þessum árstíma og á sama tíma gengur erfiðlega að útskrifa fólk sem hefur lokið meðferð. Eins og hefur komið fram.“

Sigríður segir skýringuna vera árstíðarbundnar sveiflur í álagi á spítalanum. „Það er stór hluti af okkar sjúklingahópi aldraðir einstaklingar sem eru viðkvæmir fyrir umgangspestum og öðru slíku, sem verður til þess að þeir leita oft til okkar á þessum tíma ársins. Síðan erum við með ákveðinn fjölda af legurúmum og í dag eru ansi mörg rúm sem eru ekki nýtt fyrir bráðaþjónustu vegna þess að það eru sjúklingar sem komast ekki frá okkur sem hafa lokið meðferð.“

Valgeir Örn Ragnarsson
Fréttastofa RÚV