Michelle Obama ætlar ekki í forsetaframboð

17.03.2016 - 02:12
epa04895462 US President Barack Obama (L), daughters Sasha (2-L), Malia (R) and wife Michelle arrive at the White House in Washington DC, USA, 23 August 2015, upon their return from vacationing at Martha's Vineyard.  EPA/Olivier Douliery / POOL
Frá vinstri: Barack, Sasha, Michelle og Malia Obama.  Mynd: EPA  -  ISP POOL
Michelle Obama, forsetafrú í Bandaríkjunum, hefur engan áhuga á því að feta í fótspor Hillary Clinton og bjóða sig fram til forseta sjálf. Hún segist geta haft meiri áhrif utan Washington. Þetta sagði hún á South by Southwest hátíðinni í Austin í Texasríki í dag, þar sem hún er að kynna menntunarverkefni á vegum Sameinuðu þjóðanna.

Obama var að kynna lag til stuðnings 62 milljónum stúlkna um allan heim sem hafa ekki aðgang að menntun. Snýr verkefnið að því að bæta aðstöðu þeirra til menntunar. Hún svaraði spurningum fjölmiðla og hefur AFP fréttastofan eftir henni: „Ég býð mig ekki fram til forseta. Nei, nei, ætla ekki að gera það.“

Hún segir margt hægt að gera utan Hvíta hússins. Það sé jafnvel auðveldara að vera utan þess. Þá sé hún ekki jafn aðþrengd, engin ljós eða myndavélar. Hún telur að fleiri gætu haft áhuga á að hlusta á hana þá, því nú sé hún fyrir mörgum fyrst og fremst forsetafrúin Michelle Obama. 
Forsetahjónin ætla þó að búa áfram í Washingtonborg þar til yngri dóttir þeirra lýkur menntaskólanámi.

Obama kynnti lagið „This is for my girls“ eftir Diane Warren. Ágóði af sölu lagsins verður lagður í menntaverkefni Sameinuðu þjóðanna. Obama segist djúpt snortin af því að hafa kynnst stúlkum víða um heim sem ferðast langar vegalengdir eða eiga á hættu á að verða fyrir ofbeldi á leið sinni í skóla. Hún segist sjá sjálfa sig í þeim, í metnaði og ákveðni þeirra í að láta ekki aðstæður hafa áhrif á sig.

 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV