Metumferð um íslenska flugstjórnarsvæðið

05.08.2017 - 05:25
Innlent · flug · Isavia · Samgöngumál
Mynd með færslu
Verð á flugfargjöldum hefur lækkað milli mánaða  Mynd: RUV
Yfir ein milljón farþega fór í gegnum Flugstöð Leifs Eiríkssonar í fyrsta sinn á einum mánuði í nýliðnum júlímánuði. Fóru 1,1 milljón farþega um flugstöðina sem er 22 prósenta aukning miðað við júlí í fyrra. Er það nokkru meira en farþegaspá gerði ráð fyrir. Þá var metumferð um íslenska úthafsflugstjórnarsvæðið í mánuðinum. Fjöldi flugvéla í gegnum svæðið fór í fyrsta skipti yfir 20.000 vélar á einum mánuði. Þetta segir í fréttum á vef Isavia sem birtar voru í gær.

Innanborðs í þeim 20.265 vélum sem Isavia taldi má ætla að um fimm milljónir farþega hafi ferðast um íslenskt flugstjórnarsvæði. Fram kemur í frétt Isavia að tuttuguþúsundasta flugvélin hafi verið vél á vegum Air Canada á leið milli Frankfurt í Þýskalandi og Calgary í Kanada. Flugi sem fer um íslenska flugstjórnarsvæðið er stjórnað úr flugstjórnarmiðstöð Isavia í Reykjavík og sendu flugumferðarstjórar þaðan kveðju til flugfélagsins þar sem tilkynnt var um þessa tölfræði.

Nærri fimm milljónir um Keflavíkurflugvöll

Ríflega þriðjungur umferðar um íslenska svæðið er til og frá Íslandi. Önnur umferð er yfirflug milli Evrópu og Ameríku annars vegar og Ameríku og Asíu hins vegar. Flugið milli Ameríku og Asíu hefur aukist síðustu árin en oft er stysta leiðin á milli álfanna yfir norðurpólinn og þannig í gegnum íslenska flugstjórnarsvæðið, segir í frétt Isavia.

Það sem af er ári hafa 4,87 milljónir farþega farið um Keflavíkurflugvöll. Farþegatalningin nær yfir komufarþega, brottfararfarþega og skiptifarþega og skiptist nokkuð jafnt í þrennt. 

Mynd með færslu
 Mynd: Anna Kristín Pálsdóttir  -  RÚV
Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV