Metfjöldi í Háskóla unga fólksins

10.06.2014 - 08:12
Mynd með færslu
Háskóli unga fólksins hefst í dag. Þetta er tíunda árið sem hann er starfræktur. Í Háskóla unga fólksins gefst krökkum á aldrinum 12-16 ára tækifæri til þess að kynnast vísindum og undrum tilverunnar með fræðimönnum og framhaldsnemum við Háskóla Íslands.

Skólinn hefur aldrei verið eins vel sóttur. Kristín Ása Einarsdóttir, umsjónarmaður Háskóla Unga fólksins, segir að skólinn sé mjög veglegur í ár. Boðið sé upp á 37 námskeið, 12 þemadaga og fullt af nýjungum, námskeið á borð við ljósmyndafræði og kynlega íslensku, smíði kappakstursbíls og fleira. Þannig að það verði mikið fjör hjá okkur þessa vikuna.

Kristín Ása segir að tilgangurinn með Háskóla unga fólksins sé samfélagslegur, að opna Háskólann fyrir fleirum en einungis háskólastúdentum. Og að leyfa krökkum á aldrinum 12-16 ára aðeins að kynnast starfinu þar.  Um 350 krakkar verði í Háskóla unga fólksins í ár, sem er metfjöldi.