Mestu breytingar sem orðið hafa í 10.000 ár

12.07.2017 - 18:16
epa06077349 A handout photo made available by NASA on 09 July 2017 shows a natural-color satellite imagery acquired in August 2016 of sunlight over the Larsen C ice shelf in the Antarctic Peninsula, Antarctica. That's when scientists saw something
 Mynd: EPA
Ísjaki á stærð við Vatnajökull brotnaði í vikunni frá jöklinum á Suðurskautslandinu. Sérfræðingur á Veðurstofu Íslands segir að þetta sé hluti af atburðarás sem vísindamenn nefna hrun Vestur-Suðurskautslandsins.

Ísjakinn brotnaði frá íshellu sem nefnist Larsen C íshellan á Suðurskautslandinu. Hann er einn stærsti hafísjaki sem nokkurn tíma hefur sést, um 6000 ferkílómetrar að flatarmáli og yfir 200 metra þykkur. Tómas Jóhannesson, jarðeðlisfræðingur Veðurstofunnar setur þetta í samhengi sem Íslendingar þekkja.

Hlýnandi veður
„Þetta er á stærð við Vatnajökul, eða heldur minna en Vatnajökul, svo við getum ímyndað okkur stærðina á þessu," segir Tómas. „Þetta eru heilmikil tíðindi, en reyndar ekki í fyrsta skipti sem þetta gerist. Þarna eru allmargar íshellur sem hafa verið að brotna upp síðan árið 1995. Þessi sem brotnaði af núna er sú stærsta af þeim. Menn hafa átt von á þessu í allmörg ár."

Það var aðeins hluti af íshellunni Larsen C sem brotnaði af, en í umfjöllun Breska ríkisútvarpsins kemur fram að hellan hafi ekki verið minni í tæp 12.000 ár.

Jökullinn verður óstöðugur
„Menn telja að hlýnandi veður hafi áhrif á þessar íshellur sem eru á Suðurskauts-skaganum," segir Tómas. Hann segir að íshellurnar þar séu sérstaklega viðkvæmar og þar hafi yfirborð jökulsins bráðnað. „Bræðsluvatn getur safnast saman í tjarnir. Þessar tjarnir hafa tilhneigingu til þess að síga ofan í jökulísinn og geta leitt til þess að það myndist stórar sprungur."

„Menn telja að hlýnandi sjór á hafsvæðunum í kringum Suðurskautslandið hafi almennt séð veikt þessar hellur vegna þess að þær eru að þynnast sökum bráðnunar í þessum hlýrri sjó heldur en verið hefur. Það er ferli sem er í gangi þarna mjög víða og er að leiða til taps á jökulís á öðrum stöðum á Suðurskautinu," segir Tómas og útskýrir að fyrir vikið sé jökullinn orðinn óstöðugur og vatn og ís flæði út í sjóinn.

Hrun Suðurskautslandsins
„Þetta ísflæði frá Suðurskautslandinu er núna einn af megin þáttum hækkandi sjávarborðs í heimshöfunum," segir Tómas.

„Uppbrotnun íshellnanna er ein af megin hættunum sem steðjar að þessum stóru íshvelum. Það hafa verið fréttir af því síðustu nokkur árin að hrun Vestur-Suðurskautslandsins sé hafið," segir Tómas.

Mestu breytingar í 10.000 ár
Svipaðar breytingar hafa orðið áður í jarðsögunni. Margt bendir til að einmitt þetta hafi komið fyrir á Íslandi og víðar í heiminum, það er að segja að jöklar hafi orðið óstöðugir og tekið að hopa mjög hratt. Tómas segir að þetta geti haft drastískar afleiðingar.

„Þá getur hafist mjög hraðfara flæði jökuls í sjóinn sem stöðvast ekki eftir að það er einu sinni hafið," segir Tómas. „Þarna eru að verða einhverjar mestu breytingar sem orðið hafa á jörðinni í tíu þúsund ár að þessu leyti."

Mikilla tíðinda að vænta
Tómas segir að klofningurinn í Larsen C íshellunni sem varð í vikunni sé hluti af sama ferli sem á sér stað á mörgum stöðum.

„ Það eru háværari viðvörunarbjöllur í ýmsum gögnum og mælingum sem koma frá þessum svæðum. En það sem gerðist núna við Larsen C íshelluna er vissulega áminning um að þessar breytingar eru að herða á sér. Þarna er mikilla tíðinda að vænta eða allar líkur á því að við munum sjá mjög merkilega atburðarás í nánustu framtíð," segir Tómas.

Mynd með færslu
Birkir Blær Ingólfsson
Fréttastofa RÚV