Meirihluta hælisleitenda vísað frá Finnlandi

29.01.2016 - 01:14
Mynd með færslu
 Mynd: Antti Lempiäinen  -  Yle
Finnsk stjórnvöld gera ráð fyrir að um það bil 20.000 af þeim þrjátíu og tveimur þúsundum hælisleitenda sem komu til Finnlands á síðasta ári verði synjað um hæli og þeim vísað úr landi í kjölfarið, eða ríflega 60% þeirra. Päivi Nerg, ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytisins, segir í viðtali við Helsingin Sanomat að nú sé gengið út frá tölunni 20.000, en hún gæti breyst í takt við þann fjölda hælisleitenda, sem ákveði að fara sjálfviljugir úr landi áður en til brottvísunar kemur.

Nerg segir að komið verði á fót tvenns konar miðstöðvum fyrir hælisleitendur á leið úr landi, annars vegar þá sem fara sjálfviljugir, og hins vegar þá sem sæta brottvísun. Ekki kom fram, í hverju munurinn felst. 

Svíar tilkynntu í gær að allt að helmingur þeirra 163.000 sem leituðu skjóls í Svíþjóð á síðasta ári geti átt von á því að hælisumsókn þeirra verði hafnað og brottvísun vofi yfir.

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV