Með barn í fanginu í hálku við Gullfoss

06.03.2016 - 14:31
Mynd með færslu
 Mynd: YouTube  -  RÚV
Ferðamaður sem var með barn í fanginu lenti í vandræðum við Gullfoss í gær sökum hálku. Ferðamaðurinn hafði farið inn á svæði sem er lokað af vegna hálku við fossinn. Fjöldi ferðamanna var í vanda við fossinn og þurftu sumir að halda sér í girðingar á stígnum að fossinum til að renna ekki.

Myndband af þessu var deilt á myndbandaveitunni YouTube í gær. Þar má sjá ferðamenn fara yfir hlið sem lokar gönguleiðinni að fossinum en lögregla hefur auk þess lokað leiðinni með lögregluborða.

Fyrr í dag var sagt frá því að ferðamenn virði enn að vettugi lokun við fossinn og hefur það tíðkast um þó nokkurt skeið. Mikið hefur verið fjallað um öryggi ferðamanna eftir að maður lést í Reynisfjöru. Stuttu seinna fór hópur ferðamanna út á ótraustan ísinn í Jökulsárlóni.

Þá gengur ný auglýsingaherferð Íslandsstofu út á að kenna ferðamönnum ábyrga hegðun. Fyrri auglýsingaherferð Íslandsstofu, Inspired by Iceland, hefur hlotið nokkra gagnrýni. Þar kemur fyrir margt af því sem þykir gagnrýnivert í hegðun ferðamanna.

Myndbandið frá svæðinu má sjá hér að neðan en við það hefur verið bætt hádramatískum undirleik.