Matvöruverslun í Danmörku með útrunnar vörur

29.02.2016 - 22:51
Mynd með færslu
 Mynd: DR
Matvöruverslun sem selur eingöngu útrunnar eða útlitsgallaðar vörur hefur verið opnuð í Kaupmannahöfn. Markmiðið með rekstrinum er einfalt: Að sporna við matarsóun.

Vitundarvakning hefur orðið að undanförnu um þá miklu matarsóun sem tíðkast á Vesturlöndum. Því var þröng á þingi þegar verslunin Wefood var opnuð á Amager í nýliðinni viku. Hún er rekin í góðgerðarskyni af Hjálparstofnun dönsku kirkjunnar.

Birgitte Qvist-Sørensen, framkvæmdastjóri Hjálparstofnunarinnar, segir að allt of miklum mat sé sóað. Erfitt sé að horfa upp á slíkt þegar svo margir svelti heilu hungri. Tekjurnar af rekstri Wefood verði notar til að hjálpa þessu fólki.

Matvælin sem seld eru í Wefood koma úr öðrum verslunum. Þau eru ýmist komin fram yfir síðasta söludag eða eru í skemmdum umbúðum - sem gerir þó lítið til að mati viðskiptavinanna sem rætt var við þegar danska sjónvarpið leit inn í verslunina á dögunum. 

 

Mynd með færslu
Sveinn H. Guðmarsson
Fréttastofa RÚV