MAST var dæmt fyrir að upplýsa neytendur

29.11.2016 - 16:41
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Forstjóri Matvælastofnunar segir nauðsynlegt að skýra hvaða heimildir opinberir aðilar hafa til að upplýsa neytendur um möguleg svindl eða brot á lögum hjá matvælaframleiðendum. Stofnunin var dæmd skaðabótaskyld í sumar fyrir slíkt. Forstjórinn hitti landbúnaðarráðherra í dag.

Matvælastofnun (MAST) var dæmd skaðabótaskyld af Héraðsdómi Reykjavíkur í júní fyrir að upplýsa neytendur um að ekkert nautakjöt væri í nautabökum frá matvinnslufyrirtækinu Gæðakokkum. Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu í júní og hefur Matvælastofnun áfrýjað dómnum til Hæstaréttar.

Dæmd skaðabótaskyld fyrir að upplýsa neytendur

Jón Gíslason, forstjóri MAST, segir að í því tilviki hafi verið farið í rannsóknir og fjöldi sýna tekin á markaði sem leiddu í ljós að vörurnar innihéldu ekki nautakjöt, þrátt fyrir að á merkingum hafi staðið að í bökunum væri 30 prósent nautakjöt í fyllingu. Ákveðið hafi verið að upplýsa neytendur um niðurstöðuna.

„MAST var síðan dæmd skaðabótaskyld gagnvart fyrirtækinu fyrir að upplýsa um það. Samkvæmt dómnum áttum við ekki að hafa eftirlit með fyrirtækinu,” segir Jón. „Við vorum mjög ósátt við þetta, og áfrýjuðum til Hæstaréttar því við teljum ljóst að þarna höfðum við skyldu samkvæmt löggjöf. Við eigum að sjá til þess að rannsóknir vegna merkinga séu framkvæmdar. Við vonum að það sé hægt að snúa honum við, annars er þetta mjög alvarlegt mál.”

Viðurkennir mistök

Jón sagði í hádegisfréttum RÚV í dag að mistök hafi verið gerð þegar MAST hafi ákveðið að upplýsa ekki neytendur um brot Brúneggja. Málið hefði átt að vera upplýst að fyrra bragði og hann sagðist jafnframt hafa skilning á þeirri reiði sem blossaði upp í kjölfar umfjöllunar Kastljóss.

„Nú er verið að ræða hvort neytendur hafi verið upplýstir um vottun og þar höfum við ekkert hlutverk,” segir Jón. „Þá vaknar spurningin, hvaða heimildir höfum við þá til upplýsinga. Það þarf að skýra hvaða heimildir og skyldur opinberir aðilar hafa í svona tilvikum.”

Hitti ráðherra í dag

Jón hitti Gunnar Braga Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í dag til þess að upplýsa hann um stöðu mála.

„Við vorum bara að fara yfir málin. Þetta var upplýsingafundur,” segir Jón. Gunnar Bragi sagðist í morgun vera orðlaus yfir umfjöllun Kastljóss í gær.