Margir vanbúnir og kunna varla að synda

13.02.2017 - 08:49
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Það þarf að vera fagmaður á vakt við Silfru segir Ólafur Örn Haraldsson þjóðgarðsvörður. Hann vill takmarka fjölda ferðamanna og fyrirtækja sem bjóða köfunarferðir í þjóðgarðinum en til þess þarf lagabreytingu. Bandarískur ferðamaður lést við Silfru í gær eftir að snorkla í gjánni.

 Ólafur Örn segir að þarna hafi orðið of mörg slys á síðustu árum en bendir á að þjóðgarðurinn sjái um þjónustu en ekki eftirlit með köfun, það geri Samgöngustofa. Tvennt telur hann brýnast að gert verði.  

 Það er að hafa viðveru fagmanns sem hafi valdheimilidir til að grípa þarna inni í og þegar ég segi fagmaður þá er það ekki landverðir eins og hjá okkur vinna heldur er það einhver sem kemur utan að og hefur þekkingu og reynslu af köfun. Hitt er það að takmarka fjöldann, og til þess að takmarka fjölda ferðamanna þarf að vera hægt að takmarka fjölda fyrirtækjanna. Eins og þetta er núna þá er Silfra  opin eins og Hvannadalshnúkur. Það geta allir gengið á hann og hafið þangað leiðsögn og það er eins með Silfru. 

Til þess þarf lagabreytingu en frumvarpið er tilbúið segir Ólafur Örn og á von á því að ráðherra flytji það á næstunni. Hann telur að til að fjármagna starfsmann á vakt eigi að hækka gjald fyrir köfun úr 1.000 krónum í 1.500. Fyrirtækjunum sé mikill vandi búinn, því fólk komi þarna oft algerlega vanbúið, segist hafa kafað og vera við góða heilsu. Raunin sé sú að það  hafi kannski kafað tvisvar, þrisvar sinnum á Bahamaeyjum þar sem aðstæður séu allt aðrar en í Silfru. 

þetta er þriggja gráðu heitt vatn eða kalt, hvernig sem maður vill orða það og   ég verð bara að segja ykkur eins og er það eru margir sem fara  þarna niður og þeir bara kunna ekki að synda.

Hann segist samt ekki vilja varpa ábyrgð frá þeim sem sjá um ferðir og eftirlit, því ef viðskiptavinurinn sé af þessu tagi verði að bregðast við.