Mansalsfórnarlömb sett í verri stöðu

14.03.2016 - 20:47
Kristrún Elsa Harðardóttir, réttargæslumaður kvennanna tveggja sem talið er að hafi verið nýttar sem vinnuþrælar í Vík í Mýrdal, segir kerfið algerlega hafa brugðist þeim og komið þeim í verri stöðu en þær voru í. Að hennar sögn fóru konurnar úr landi vegna hræðslu og fjárskorts.

Þegar upp komst um málið í febrúar sótti lögreglan konurnar og flutti í Kvennaathvarfið. Til er viðamikil aðgerðaráætlun sem Kristrún bjóst við að færi þá í gang.

„Þetta er rosalega fín aðgerðaáætlun út af fyrir sig. En hún bara virkar ekki því henni er ekki implementað, henni fylgir ekkert fjármagn. Það er neyðarteymi í þessari aðgerðaráætlun sem ætti að fara af stað innan 24 stunda og taka utan um þessa þolendur. En þetta neyðarteymi er bara ekki til.“

Kristrún segir konurnar hafa fengið 5.200 krónur á viku, þær hafi ekki fengið atvinnuleyfi, litlar upplýsingar, litla þjónustu og verið dauðhræddar.

„Ég ætlaði bara að fara með þetta mál beint í fjölmiðla og bara pressa á því mér var bara nóg boðið. Ég ákvað þó að senda póst á Ólöfu Nordal fyrst. Athuga hvort hún væri tilbúin að gera eitthvað fyrir mína skjólstæðinga í þessu máli.“

Ráðuneytið brást skjótt við og Kristrún átti þar fund með hópi fólks sem fer með þessi mál.

„Þau voru alveg ofboðslega sammála mér um allt sem ég var að segja. En ég sagði við þau: Það er allt gott og blessað og frábært að það verði eitthvað gert í þessum málum. En hvað ætlið þið að gera núna fyrir mína skjólstæðinga? Þær eru hérna núna, þær eru búnar að lenda í þessu. Ætliði að hækka framfærsluna, ætliði að reyna að veita þeim atvinnuleyfi, hvað ætlið þið að gera?

„Ja við verðum bara að skoða það og höfum svo samband við þig.“ var svarið.

Það er skemmst frá því að segja að ég hef ekkert heyrt.“

 

Konurnar trúðu Kristrúnu fyrir því að þær væru á förum, þremur dögum fyrir brottför. Fyrir vikið vannst henni tími til að fá þær til að bera vitni áður. Enn er þó óljóst hvaða áhrif brotthvarf þeirra mun hafa á málaferlin gegn meintum geranda í mansalsmálinu. En hvers vegna vildu þær fara?

„Þær bara gátu ekki verið hérna, peningalausar. Þær bara eru með yfirboðara. Þær þurfa að skila einhverju. Þær eru hræddar um fjölskylduna sína.“

Það er talið afar mikilvægt í mansalsmálum að meint fórnarlömb séu ekki sett í verri stöðu en þau voru fyrir. Þetta telur Kristrún þó vera tilfellið með konurnar tvær frá Sri Lanka. Vegna þess að þær komu frá ríki utan EES var engin leið fyrir þær að fá atvinnuleyfi, þótt þær væru með atvinnutilboð í höndunum. Þar með gátu þær ekki haft neinar tekjur og því ekki um annað að ræða en fara. Rætt var við Kristrúnu í Kastljósi kvöldsins og má spila viðtalið í heild í glugganum hér að ofan.