Mannréttindastjóri SÞ gagnrýnir Sádi-Araba

18.03.2016 - 17:40
epa05138148 UN High Commissioner for Human Rights Zeid Ra'ad Al Hussein of Jordan speaks to the media during a press conference at the European headquarters of the United Nations in Geneva, Switzerland, 01 February 2016.  EPA/SALVATORE DI NOLFI
Zeid Ra'ad al-Hussein, mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna.  Mynd: EPA  -  KEYSTONE
Zeid Raad Al Hussein, mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna, gagnrýndi í dag Sádi-Araba og bandamenn þeirra og sakaði þá um árásir á almenna borgara í Jemen.

Hann sagði að tvisvar sinnum fleiri almennir borgarar hefðu fallið í árásum þeirra í Jemen en annarra vopnaðra sveita í landinu til samans, langflestir í loftárásum. Meira en 6.000 manns, um helmingurinn almennir borgarar, hafa fallið í stríðinu í Jemen síðan Sádi-Arabar og bandamenn hófu loftárásir á sveitir uppreisnarmanna í landinu í mars í fyrra. 

Hussein sagði að Sádi-Arabar og bandamenn hefðu varpað sprengjum á sjúkrahús, heilsugæslustöðvar, skóla og fyrirtæki. Einnig markaði, brúðkaupsgesti og íbúðarhús í þorpum, bæjum og borgum víðs vegar um land. Að minnsta kosti 106 almennir borgarar létu lífið í árás á markað í bænum Mastaba í norðurhluta landsins fyrr í þessari viku. 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV