Málflutningur í máli Atla Helgasonar á morgun

31.01.2016 - 21:14
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Málflutningur verður í máli Atla Helgasonar sem hefur óskað eftir því að fá lögmannsréttindi sín aftur. Ríkissaksóknari leggst gegn því að Atli fái þessi réttindi en hann var dæmdur í sextán ára fangelsi fyrir morðið á Einari Erni Birgissyni fyrir 15 árum. Atli hlaut uppreist æru fyrir áramót hjá innanríkisráðuneytinu.

Hulda Elsa Björgvinsdóttir, saksóknari hjá embætti ríkissaksóknara, fór fram á að það við fyrirtöku málsins að Atli myndi gefa skýrslu fyrir dómi. Hulda segir í samtali við fréttastofu að Atli þurfi þess þó ekki.

Björgvin Jónsson, lögmaður Atla, sagðist ekki geta tjáð sig hvort Atli myndi gefa skýrslu á morgun - það yrði að koma í ljós á morgun. „Við erum bara að vinna í þessu núna.“ Málflutningurinn hefst klukkan 10 á morgun og verður opinn. 

Þegar málflutningi lýkur á morgun verður málið lagt í dóm en enginn sérstakur tímafrestur er gefinn fyrir úrskurð af þessu tagi. Ágreiningurinn í málinu snýst hvort Lögmannafélag Íslands geti staðið í vegi fyrir því að Atli fái réttindin aftur - Lögmannafélagið telur að hann þurfi meðmæli félagsins og að taka lögmannsprófið að nýju.

Mál Atla vakti mikla athygli eftir að Kastljós greindi frá því að hann hefði hlotið uppreist æru.  Birgir Örn Birgisson, faðir Einars Arnar, sagðist ekki ná því ef Lögmannafélag Íslands teldi sig hafa not fyrir mann með dómgreind eins og Atla. 

Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, taldi hins vegar ekki annað hægt en að veita Atla lögmannsréttindin aftur - ekki mætti mismuna mönnum eftir því hvað þeir hafi brotið af sér.