Mælir með loftárásum BNA á talibana

epa04966151 Commander of the Resolute Support Mission and United States Force - Afghanistan Army General John Campbell testifies before the Senate Armed Services Committee on 'The Situation in Afghanistan', on Capitol Hill in Washington, DC, USA
Campbell á að baki 37 ára feril í bandaríska hernum.  Mynd: EPA
Bandaríski hershöfðinginn John F. Campbell, sem var æðsti yfirmaður herafla Bandaríkjanna í Afganistans þar til í marsbyrjun, leggur til að aftur verði tekið til við loftárásir á bækistöðvar talibana í landinu. Þetta er þvert á stefnu stjórnvalda um hlutverk Bandaríkjahers í Afganistan, og þykir undirstrika þá togstreitu sem er á milli hersins og varnarmálaráðuneytisins í þessu máli.

Háttsettir embættismenn í varnarmálaráðuneytinu hafa kvartað undan því að Campbell sneri sér beint til Hvíta hússins með þessar tillögur sínar, án þess að bera þær undir varnarmálaráðherrann, Ashton B. Carter.

Talibanar hafa verið að færa sig upp á skaftið í Afganistan að undanförnu, eftir að hafa átt mjög undir högg að sækja til skamms tíma. Sveitir þeirra hafa verið að endurheimta nokkur svæði, sem hersveitir Bandaríkjamanna hröktu þá frá á sínum tíma með mikill fyrirhöfn og talsverðu mannfalli. Undanfarin misseri hefur stefnan verið sú að draga æ meira úr afskiptum og þátttöku vestrænna herja og láta stjórnarher Afganistans eftir að verjast talibönum og öðrum vopnuðum hópum sem á landið herja.

Campbell ávarpaði bandarískar hersveitir í Afganistan skömmu áður en hann fór þaðan. Sagði hann marga leiðtoga talibana augljóslega telja sig í góðri vígstöðu um þessar mundir. Mikilvægt væri að bregðast hart og skjótt við til að sýna fram á hið gagnstæða.

Í frétt Washington Post um málið segir að búist sé við róstusömu sumri á Afganistan, sem reyna muni mjög á stjórnarherinn. Þótt líta megi svo á að ástandið kalli á utanaðkomandi aðstoð muni öll frekari hernaðaríhlutun Bandaríkjanna undirstrika enn frekar hve illa heimamenn eru í stakk búnir til að ráða við það og grafa undan stjórnvöldum í Kabúl.